Erlent

Eini eftirlifandi kláfslyssins verði sendur aftur til ættingja sinna á Ítalíu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bilunin kom upp þegar stutt var eftir af um tuttugu mínútna langri ferð kláfferjunnar frá bænum Stresa og upp Mottarone-fjall. Eitan er sá eini sem lifði slysið af.
Bilunin kom upp þegar stutt var eftir af um tuttugu mínútna langri ferð kláfferjunnar frá bænum Stresa og upp Mottarone-fjall. Eitan er sá eini sem lifði slysið af. AP

Ísraelskir dómstólar hafa úrskurðað að sex ára gamall drengur, sem er eini eftirlifandi kláfferjuslyss sem varð á Ítalíu í maí, verði sendur aftur til ættingja sinna á Ítalíu eftir að afi hans tók hann með sér til Ísrael. 

Eitan Biran hafði verið í umsjá föðursystur sinnar á Ítalíu eftir að foreldrar hans, yngri bróðir og ellefu til viðbótar fórust í kláfferjuslysi í norðurhluta Ítalíu í vor. Fréttastofa Reuters greinir frá. 

Móðurafi drengsins heimsótti hann í síðasta mánuði og án vitneskju frænkunnar tók afinn hann með sér til Sviss þar sem þeirra beið einkaflugvél sem flutti þá til Ísrael. Að sögn frænkunnar telst málið til mannráns og vísaði þar til Haag-samningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ætleiðingu milli landa. 

Þá óskaði hún eftir því við fjölskyldudómstól í Tel Aviv að drengurinn yrði sendur aftur til hennar á Ítalíu. 

Dómstóllinn úrskurðaði í morgun að Ítalía væri heimili drengsins og ætti hann því að snúa aftur þangað, þar sem hann hafi búið á Ítalíu með foreldrum sínum síðan hann var mánaðargamall. 

Dómurinn tók ekki til greina röksemdarfærslu afans um að Ísrael væri réttmætt heimili drengsins, en að mati afans var það svo þar sem foreldrarnir hafi ætlað að flytja aftur til Ísrael. 

Í úrskurðinum segir að ítalskir dómstólar hafi veitt frænkunni forræði yfir drengnum og hafi afinn því brotið á bága við Haag-samninginn. 

Móðurfjölskylda drengsins hefur sjö daga til að áfrýja dómnum, sem fjölskyldan hyggst gera. Að mati fjölskyldunnar byggði dómurinn eingöngu á því hvernig Eitan var fluttur frá Ítalíu en ekki á því hvað væri best fyrir hann og framtíð hans.  


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×