Enski boltinn

Liverpool gæti verið án Salah og Mane í átta leikjum í byrjun næsta árs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah og Sadio Mane ræða málin í miðjum leik Liverpool og Chelsea á þessu tímabili.
Mohamed Salah og Sadio Mane ræða málin í miðjum leik Liverpool og Chelsea á þessu tímabili. Getty/Simon Stacpoole

Mohamed Salah og Sadio Mane hafa verið í stuði að undanförnu og algjörir lykilmenn í sóknarleik liðsins. Það eru því margir stuðningsmenn sem kvíða fyrir næsta janúar þegar þeir verða líka uppteknir annars staðar.

Afríkukeppnin í fótbolta var færð aftur inn á tímabilið og það þýðir að afrísku landsliðin geta kallað til síns leikmenn frá evrópsku félögunum. Mohamed Salah spilar með Egyptum og Sadio Mane með Senegal.

Þetta eru slæmar fréttir fyrir mörg félög en þetta verður varla verra en fyrir Liverpool ekki síst þar sem Naby Keita gæti líka verið á leiðinni á mótið sem fer fram í Kamerún.

Liverpool er að reyna að vinna í því að halda þessum leikmönnum sínum eins lengi og mögulegt er en til þess þarf velvilja frá knattspyrnusamböndunum.

Samkvæmt reglun FIFA þá hafa afrísku landsliðið rétt á því að fá leikmenn 27. desember og Afríkukeppnin klárast síðan ekki fyrr en í byrjun febrúarmánaðar.

Verði leikmennirnir frá í allan þennan tíma þá gætu þeir misst af átta leikjum hjá Liverpool sem er svakalegur fjöldi.

Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp er sagður ætla að reyna að komast að samkomulagi við knattspyrnusambönd Salah, Mane og Keita í næsta landsliðsglugga með það markmið að fá að halda leikmönnum sínum fram yfir leik á móti Chelsea 2. janúar.

Úrslitaleikur Afríkukeppninnar á að fara fram 6. febrúar en það er ekkert víst að landslið Liverpool leikmannanna fari alla leið.

Það er samt lykilatriði fyrir Klopp að halda sínum mönnum fram yfir mikilvæga leiki á móti Leicester og Chelsea.

Klopp hefur sagt að hann sé hrifinn af Afríkukeppninni en það hafi verið stórslys fyrir Liverpool þegar keppnin var færð til baka inn á tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×