Innlent

„Þetta snýst um rétt­læti ekki þægindi“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Guðmundur Gunnarsson kalla eftir því að blásið verði til nýrra kosninga í kjölfar fregna dagsins.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Guðmundur Gunnarsson kalla eftir því að blásið verði til nýrra kosninga í kjölfar fregna dagsins. Vísir/Egill

Fyrrverandi Alþingismaður segir ekkert annað í stöðunni eftir fregnir dagsins en að blása til nýrra þingkosninga. Lögreglan á Vesturlandi gaf út í dag sektir á meðlimi yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi en ekki er hægt að fullyrði hvort átt hafi verið við óinnsigluð kjörgögn í talningarsalnum á Hótel Borgarnesi. 

Lögreglan hefur gefið út sektir á meðlimi kjörstjórnarinnar í Norðvesturkjördæmi sem segjast ekki ætla að borga sektirnar. Þá hefur lögreglan jafnframt skilað svörum við fyrirspurnum undirbúningskjörbréfanefndar um rannsókn á upptökum af hótelinu. Í svörum lögreglunnar kemur meðal annars fram að starfsfólk hafi farið um talningasalinn þegar yfirkjörstjórn var ekki viðstödd og að ekki sé hægt að útiloka að átt hafi verið við kjörgögnin. 

„Já, lögreglustjórinn á Vesturlandi gefur það út að yfirkjörstjórn hefur gerst brotleg við kosningalög og það staðfestir kæruefni mitt og okkar Guðmundar. Þetta eru mikil tíðindi vegna þess að það yrði líka óheppilegt ef kjörbréfanefnd Alþingis og Alþingi sjálft myndi staðfesta kjörbréf byggð á ólögmætri niðurstöðu,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, frambjóðandi í kosningum fyrir Samfylkinguna og fyrrverandi þingkona, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hún telji vænlegast að blása til nýrra kosninga. 

„Það yrði hreinlegasta niðurstaðan að fara í uppkosningu enda leyfa kosningalögin það en nú er bara að sjá hvaða ákvörðun undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa tekur.“

Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar tekur undir þetta, en bæði hann og Rósa Björk hafa kært endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi. Hann segist hafa mestar áhyggjur af því að í öllu havaríinu hafi fólk misst sjónar á því mikilvægasta í þessu máli. 

„Mér finnst dálítið merkilegt að heyra hvernig hver á fætur öðrum neitar að ná taki á þessari heitu kartöflu. Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af, og við megum ekki missa sjónar á því hvað er aðalatriðið í þessu máli, við erum að reyna að leita að réttlætinu,“ segir Guðmundur. 

„Við eigum að leiða það rétta fram, ekki það sem er þægilegt eða það sem hentar flokkslínum best. Það sem ég heyri á mörgum Alþingismönnum og málsmetandi fólki, að menn eru að reyna að tala sig niður á þá niðurstöðu.“

Ljóst sé eftir tíðindi dagsins að ekki megi láta við sitja í málinu eins og það stendur núna. 

„Það er alveg ljóst eftir tíðindi dagsins að þetta sem við erum með í höndunum núna, það er engin leið að við getum hleypt þessu í gegn á þennan hátt, eins og kjörbréfin hafa verið gefin út. Þá erum við að opna eitthvað pandorubox sem við áttum okkur ekki einu sinni á hvernig mun í raun enda og hvernig það mun skella framan í andlitin á okkur,“ segir Guðmundur. 

„Við verðum að leiða það rétta fram, þetta snýst um réttlæti ekki þægindi og ég kalla eftir þingmönnum og ég kalla eftir því frá Alþingi að sýna dug og hugrekki til þess að leiða það rétta fram.“


Tengdar fréttir

Segja öryggis­mynda­vélar sýna fólk ganga inn og út úr salnum

Kjarninn hefur greint frá því að á öryggismyndavélum við tvo innganga í sal þar sem óinnsigluð kjörgögn voru geymd í Norðuvesturkjördæmi sjáist fólk ganga inn og út á þeim tíma sem yfirkjörstjórn var heima á milli talningar og endurtalningar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×