Innlent

Lög­regla telur yfir­kjör­stjórn hafa brotið kosninga­lög

Eiður Þór Árnason skrifar
Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi
Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi vísir/tryggvi páll

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur boðið allri yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis að ljúka máli sem varðar framkvæmd atkvæðatalningar í kjördæminu með sekt.

Samkvæmt heimildum fréttastofu varðar sektargerðin brot á 104. grein kosningalaga um frágang kjörgagna. Greint hefur verið frá því að yfirkjörstjórnin hafi skilið eftir óinnsigluð atkvæði í sal Hótels Borgarness eftir að talningu lauk.

Fyrst var greint frá sektargerðunum í frétt RÚV en þar segir að Ingi hafi fengið hæstu sektargerðina upp á 250 þúsund krónur. Hinir meðlimir yfirkjörstjórnarinnar hafi svo fengið sektargerð upp á 150 þúsund krónur. 

Ef þau fallast ekki á að greiða sektina tekur lögreglustjórinn á Vesturlandi ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur fólkið ekki enn greitt sektina. 

Rannsókn lauk í seinustu viku

Karl Gauti Hjaltason, oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi, kærði talningu atkvæða í kjördæminu til lögreglu. Rannsókn lauk í síðustu viku og fór málið þá til ákærusviðs. 

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Karl Gauti hyggst sömuleiðis ekki ræða málið að svo stöddu. 

Í 104. grein kosningalaga segir að yfirkjörstjórn skuli setja alla notaða kjörseðla undir innsigli og halda gildum og ógildum kjörseðlum sér. Ingi hefur sjálfur greint frá því að kjörgögn hafi ekki verið innsigluð að talningu lokinni í kjördæminu.

Fleiri ljósmyndir teknar af atkvæðum í salnum

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögregla aflað ljósmynda sem þrír starfsmenn Hótels Borgarness tóku inn í salnum þar sem atkvæðin voru talin, annars vegar klukkan 8:07 og 9:40 morguninn eftir kjördag. 

Myndirnar voru teknar á meðan yfirkjörstjórn var fjarverandi og sýna að kjörgögn voru ekki geymd í lokuðum kössum eða undir innsigli. 

Áður hafði einungis verið greint frá einu setti af ljósmyndum sem birt var á samfélagsmiðlinum Instagram. Þeim var síðar eytt út af miðlinum.


Tengdar fréttir

Segja öryggis­mynda­vélar sýna fólk ganga inn og út úr salnum

Kjarninn hefur greint frá því að á öryggismyndavélum við tvo innganga í sal þar sem óinnsigluð kjörgögn voru geymd í Norðuvesturkjördæmi sjáist fólk ganga inn og út á þeim tíma sem yfirkjörstjórn var heima á milli talningar og endurtalningar.

Búinn að kæra kosningarnar til lög­reglunnar

Karl Gauti Hjalta­son hefur sent kæru til lög­reglunnar á Vestur­landi vegna fram­kvæmdar kosningar í Norð­vestur­kjör­dæmi. Sam­kvæmt upp­lýsingum frétta­stofu hefur lög­reglan á Vestur­landi mót­tekið kæruna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×