Erlent

Gates hafi verið ráð­lagt að láta af ó­við­eig­andi tölvu­póst­sam­skiptum

Árni Sæberg skrifar
Bill Gates er sagður hafa átt í kynferðislegum samskiptum við starfsmann Microsoft.
Bill Gates er sagður hafa átt í kynferðislegum samskiptum við starfsmann Microsoft. Getty Images

Yfirmenn hjá Microsoft eru sagðir hafa ráðlagt Bill Gates að hætta kynferðislegum tölvupóstsamskiptum við kvenkyns starfsmann fyrirtækisins árið 2008.

Árið 2020 tilkynnti Bill Gates að hann myndi segja sig úr stjórn tæknirisans Microsoft í þeim tilgangi að einbeita sér að góðgerðarstarfsemi sinni. Hann hafði áður látið af daglegum störfum innan fyrirtækisins árið 2018.

Fljótlega eftir afsögnina greindi Wall Street Journal frá því að Gates hefði í raun hætt vegna þess að rannsókn væri hafin innan fyrirtækisins á meintu ástarsambandi hans við verkfræðing sem starfaði hjá Microsoft.

New York Times hafði áður greint frá því að Gates hefði verið þekktur fyrir að reyna við konur sem störfuðu hjá Microsoft og góðgerðastofnun þeirra Melindu Gates, þáverandi konu hans. Hjónin skildu fyrr á þessu ári.

Samskiptin hafi verið kynferðislegs eðlis

Í nýlegri grein Wall Street Journal segir að stjórnendur Microsoft hafi komist á snoðir um óviðeigandi tölvupóstsamskipti milli Gates og kvenkyns starfsmanns fyrirtækisins árið 2008, rúmum áratug áður en hann sagði sig frá stjórninni og skildi við eiginkonu sína.

Gates er sagður hafa stigið í vænginn við konuna og átt í kynferðislegum samskiptum við hana í tölvupósti.

Þá segir að stjórnendurnir Brad Smith, þáverandi yfirlögmaður, og Lisa Brummel, þáverandi mannauðsstjóri, hafi ráðlagt Gates að láta af samskiptunum. Hann hafi fallist á að þau væru ekki skynsamleg og samþykkt að binda enda á þau.

Talsmaður Microsoft vísar fréttaflutningnum til föðurhúsanna í samtali við The Guardian.

„Þessar fullyrðingar eru falskir, endurnýttir orðrómar frá heimildarmönnum sem hafa enga beina vitneskju, og í sumum tilvika hagsmunaárekstra,“ segir talsmaðurinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.