Innlent

Þór­ólfur gefur heil­brigðis­ráð­herra þrjá kosti

Snorri Másson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði sjálfur til allsherjarafléttingu í lok júní. Þar fór sem fór.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði sjálfur til allsherjarafléttingu í lok júní. Þar fór sem fór. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir hefur skilað heilbrigðisráðherra tillögum að næstu skrefum í sóttvörnum hér innanlands. Valið er Svandísar Svavarsdóttur en sóttvarnalæknir telur að svigrúm sé til tilslakana.

Gildandi takmarkanir renna út á miðvikudaginn, þannig að heilbrigðisráðherra hefur frest sem því nemur til að taka ákvörðun. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur, ólíkt því sem jafnan hefur verið, ekki til að gera eitthvað eitt, heldur setur fram þrjá möguleika, 1. að halda óbreyttu ástandi, 2. að slaka til í skrefum eða 3. að aflétta alveg.

Og hvað myndi hann gera ef hann mætti ráða?

„Ég veit það ekki. Eins og ég hef sagt áður held ég að það séu forsendur núna til tilslakana og Landspítalinn hefur líka gefið það út. Ég held að við þurfum bara að horfa á hvað gæti gerst og vera tilbúin til að bregðast við því,“ segir Þórólfur Guðnason í samtali við fréttastofu.

Sóttvarnaraðgerðir gegn Covid-19 en ekki öðru

Eftir sem áður vill sóttvarnalæknir að takmarkanir taki mið af getu Landspítalans. Það vakti misjöfn viðbrögð þegar Þórólfur sagði í viðtali á dögunum að í ljósi RS-veiru og inflúensu kynni að vera varasamt að ráðast í miklar tilslakanir.

Þar segir Þórólfur að menn séu að blanda saman ólíkum hlutum: 

„Ég var bara að benda á það að þessar tvær veirusýkingar, sem koma á hverju ári, gætu valdið auknu álagi á spítalana. Meira álagi en áður, sem myndi þá gera þol okkar á spítalanum fyrir Covid-19 enn minna. Ég held að við þurfum að horfa á þol spítalans og mér finnst það mjög óábyrgt ef stjórnvöld vilja ekki skoða þann möguleika og skoða þetta í þessu ljósi. Ég er ekki að tala um sóttvarnaraðgerðir gegn RS og inflúensu, ég er að tala um sóttvarnaraðgerðir gegn Covid-19 og það þol sem spítalinn hefur þegar þessar tvær veirur eru að ganga.“

Það var Þórólfur sem lagði það til í lok júní að aflétta öllum takmörkunum en það var skammvinn skemmtun enda fór af stað stærsta bylgja hingað til í kjölfarið. Samkomutakmarkanir tóku aftur gildi í lok júlí.

„Það gafst ekki vel og við sjáum líka hvað er að gerast á Norðurlöndunum. Þar gengur nokkuð vel en það er ekki komin löng reynsla á það. Það er aukning á tilfellum í Danmörku en hvað það stendur lengi og hve alvarlegt það verður á eftir að koma í ljós,“ segir Þórólfur.


Tengdar fréttir

Danir bjóða öllum þriðju sprautuna

Öllum Dönum mun bjóðast þriðji bóluefnisskammturinn gegn Covid-19. Þetta tilkynnti Magnus Heunicke heilbrigðisráðherra í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.