Erlent

Forsætisráðherra Spánar heitir því að banna vændi á ný

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konur mótmæla frumvarpi gegn sölu vændis á götum úti árið 2014.
Konur mótmæla frumvarpi gegn sölu vændis á götum úti árið 2014. epa/Luca Piergiovanni

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, hét því í gær að banna vændi í landinu. Í ræðu sinni undir lok þriggja daga ráðstefnu Sósíalistaflokksins sagði hann vændi gera konur að þrælum en rannsóknir benda til að 30 til 40 spænskra karla hafi greitt fyrir kynlíf.

Vændi var afglæpavætt árið 1995 og árið 2016 áætluðu Sameinuðu þjóðirnar að veltan í „greininni“ næmi um 3,7 milljörðum evra. 

Könnun árið 2009 leiddi í ljós að allt að einn af hverjum þremur spænskum körlum hefði greitt fyrir kynlíf en önnur rannsókn benti til þess að hlutfallið væri allt að 39 prósent. Þá var Spánn sagður þriðja stærsta miðstöð vændis í heiminum í skýrslu Sameinuðu þjóðanna árið 2011.

Í fyrsta og öðru sæti voru Taíland og Puerto Rico.

Fá lög og reglur gilda um vændi á Spáni nema að þriðja aðila er bannað að hagnast á viðskiptunum. Talið er að um 300.000 konur hafi tekjur af vændi á Spáni en stuðningsmenn núverandi kerfis segja það hafa skapað öruggara umhverfi en þegar vændi var ólöglegt.

Sósíalistaflokkur Sanchez hét því árið 2019 að gera vændi ólöglegt en ekkert hefur borið á aðgerðum. Var loforðið almennt talið þáttur í tilraun flokksins til að ná til kvenkyns kjósenda.

Undanfarin ár hafa áhyggjur aukist af því að mansal sé að aukast samhliða vændinu. Árið 2017 sagðist lögregla hafa frelsað 13.000 konur í aðgerðum gegn mansali og sagði að minnsta kosti 80 prósent þeirra hafa verið neydd í vændi af þriðja aðila.

BBC greindi frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.