Innlent

Lög­regla hefur lokið rann­sókn vegna and­láts í Vinda­kór

Árni Sæberg skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið rannsókn sinni á andláti Daníels Eiríkssyni.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið rannsókn sinni á andláti Daníels Eiríkssyni. Vísir/Vilhelm

Rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið rannsókn sinni á andláti Daníels Eiríkssonar. Daníel fannst illa leikinn fyrir utan heimili sitt í Vindakór þann 2. apríl síðastliðinn og lést af sárum sínum á Landspítalanum daginn eftir.

Morgunblaðið hefur eftir Maríu Kára­dótt­ur, aðstoðarsak­sókn­ara á ákæru­sviði lögregluembættisins að rannsókn málsins sé nú lokið.

Einn sætti gæsluvarðhaldi vegna málsins um tíma en upphaflega voru þrír rúmenskir karlmenn handteknir í tenglsum við málið. Sá sem hnepptur var í gæsluvarðhald hefur einn réttarstöðu sakbornings í málinu.

Sakborningur virti ekki farbann

Karlmaðurinn sem hefur stöðu sakbornings í málinu var úrskurðaður í farbann eftir að gæsluvarðhaldi lauk.

Maðurinn virti farbannið að vettugi og yfirgaf landið í júlí síðastliðnum. Þá var evrópsk handtökuskipun gefin út vegna flótta mannsins. Hann kom þó sjálfviljugur til landsins nokkrum dögum síðar.

„Farbann er ekkert öruggt úrræði og það er svo sem okkar reynsla að menn hafa alveg geta farið úr landi þó þeir sæti farbanni ef einbeittur vilji er fyrir hendi til að koma sér úr landi,“ sagði Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um málið á sínum tíma.

Sagði Daníel hafa látist af slysförum

Sakborningur í málinu sagði að um slys hafi verið að ræða þegar Daníel lést. Verjanda mannsins sagði hann vera niðurbrotinn vegna málsins í samtali við Ríkisútvarpið á meðan hann sætti gæsluvarðhaldi.

Yfirstaðinni rannsókn lögreglu miðaði meðal annars að því hvort bifreið hafi verið ekið á Daníel að sögn Margeirs Sveinssonar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×