Enski boltinn

Slúður um að Klopp vilji fá Real Madrid goðsögn til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Toni Kroos hefur ráðið ríkjum á miðju Real Madrid í sjö ár.
Toni Kroos hefur ráðið ríkjum á miðju Real Madrid í sjö ár. Getty/Pedro Salado

Liverpool er orðað við stjörnuleikmann í spænsku blöðunum í morgun og þar er á ferðinni einn besti miðjumaður heims í langan tíma.

Jürgen Klopp er sagður hafa áhuga á að ná í landa sinn til Real Madrid en því er slegið upp í spænska miðlinum El Nacional í morgun að Liverpool muni reyna við Toni Kroos næsta sumar.

Toni Kroos verður 32 ára í janúar en hann hefur spilað með Real Madrid frá árinu 2014. Hann var þar á undan með Bayern München. Kroos hefur spilað 106 landsleiki fyrir Þýskaland og varð heimsmeistari með liðinu 2014.

Kroos hefur unnið þrettán tila síðan að hann kom til Real Madrid þar á meðal Meistaradeildina þrisvar og spænska meistaratitilinn tvisvar. Hann hefur einnig orðið heimsmeistari félagsliða með spænska félaginu.

Verðmiðinn á Kroos er sagður vera í kringum 25 milljónir evra en samningur hans og Real Madrid er til sumarsins 2023.

Klopp er sagður hafa verið lengi hrifinn af Kroos og þetta yrði ekki í fyrsta skiptið sem hann myndi reyna að fá hann í sitt lið.

Knattspyrnustjóri Liverpool vill lífga upp á miðju liðsins fyrir næsta leiktíð, Jamas Milner er á leið í minna hlutverk og bæði Alex Oxlade-Chamberlain og Naby Keita gæti verið á förum.

Kroos kæmi vissulega með mikla reynslu og gæði inn á miðjuna hjá Liverpool en um leið yrði erfiðara fyrir Klopp að spila hinum efnilegu leikmönnum Curtis Jones og Harvey Elliott.

Real Madrid þarf aftur á móti að selja Kroos næsta sumar ef félagið ætlar að fá eitthvað fyrir hann því annars gæti hann farið á frjálsri sölu sumarið 2023.

Hann er með 22 mörk og 80 stoðsendingar í 322 leikjum fyrir Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×