Erlent

Clinton lagður inn með blóðeitrun í kjölfar þvagfærasýkingar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Clinton, George W. Bush og Barack Obama árið 2017
Clinton, George W. Bush og Barack Obama árið 2017 epa/Andrew Gombert

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur verið lagður inn á sjúkrahús eftir að hafa fengið blóðeitrun, eða sýklasótt, í kjölfar þvagfærasýkingar. 

„Hann er á batavegi, er andlega hress og afar þakklátur þeim læknum, hjúkrunarfræðingum og starfsfólki sem hefur veitt honum framúrskarandi umönnun,“ segir Angel Urena, talsmaður Clinton.

Í yfirlýsingu á Twitter segir að forsetinn fyrrverandi hafi verið lagður inn á UC Irvine Douglas Medical Center í Orange í Kaliforníu með sýkingu. Tekið er fram að ekki var um að ræða Covid-tengd veikindi.

Þá sögðu Alpesh Amin og Lisa Bardack, læknar Clinton, í annarri yfirlýsingu að forsetinn hefði verið lagður inn til eftirlits og verið gefið sýklalyf og vökva í æð. Eftir tvo daga væru blóðkornagildin á réttri leið og að sýklalyfjagjöfin væri að bera árangur.

Clinton gekkst undir hjartaðgerð árið 2010 og hjáveituaðgerð á hjarta árið 2004.  Hann hefur einnig gengist undir aðgerðir vegna húðæxla og hefur sögu um ýmis ofnæmi og heyrnaskerðingu. 

New York Times greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×