Innlent

Aldrei fleiri tekið þátt og stór verkefni framundan

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Margir vildu fá fleiri ærslabelgi í Reykjavík en slíka belgi má finna víða um land allt.
Margir vildu fá fleiri ærslabelgi í Reykjavík en slíka belgi má finna víða um land allt. Vísir/Vilhelm

Íbúakosningunni Hverfið mitt í Reykjavík lauk klukkan 12 í dag en metþátttaka var í kosningunum í ár að sögn verkefnisstjóra. Nú verður hafist handa við að fara yfir niðurstöðurnar og undirbúa framkvæmd verkefna.

Þetta er í níunda sinn sem kosningarnar fara fram en Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnisstjóri Hverfið mitt, segir þátttökuna hafa verið vonum framar í ár.

„Það er mjög gaman að sjá að það var slegið þátttökumet í ár í öllum hverfum Reykjavíkur,“ segir Eiríkur. „Gaman að sjá hvað íbúar hafa mikinn áhuga á að bæta hverfin sín og þátttakan rækilega rifið sig í gang.“

Tillögur íbúa í kosningunum í ár voru af ýmsu tagi en Eiríkur segir það hafa verið áberandi hvað það voru mörg stór verkefni. Aðspurður um hvers konar verkefni hafi staðið upp úr segir Eiríkur að það hafi meðal annars verið mjög mikið af ærslabelgjum um alla borgina.

Eiríkur Búi Halldórsson er verkefnisstjóri Hverfið mitt hjá Reykjavíkurborg.

Aðrar tillögur sem hægt var að kjósa um í ár voru til að mynda hjólabrettagarður í Vesturbæ, yfir byggður grillskáli í Laugardal, skólahreystibraut í Breiðholti, leikvöllur fyrir fullorðið fólk í Grafarholti, sjósundsaðstaða á Kjalarnesi, og svo margt fleira.

Nú verður hafist handa við að fara yfir niðurstöðurnar og verða þær síðan birtar síðar í dag. Íbúar geta þá farið að hlakka til en í heildina er um að ræða 850 milljónir króna sem skiptist á tíu hverfi Reykjavíkurborgar.

„Núna fer þetta fram á tveggja ára fresti þannig það er fjármagn tveggja ára lagt saman, þá erum við með pening fyrir bæði fleiri og stærri verkefni og við erum að fara beint af stað í það að undirbúa framkvæmdina,“ segir Eiríkur. 

„Við erum að stefna á framkvæmdir verkefna sumarið 2022 þannig það er bara stutt í þetta og það verður gaman að sjá þessi verkefni setja svip sinn á öll hverfi Reykjavíkur.“


Tengdar fréttir

Meiri þátt­taka í hverfiskosningum og meiri peningar í húfi

Mikil aukning hefur verið í þátttöku Reykvíkinga í íbúakosningunni Hverfið mitt sem lýkur á morgun. Verkefnisstjóri Hverfið mitt telur aukna þátttöku skýrast af auknum fjármunum sem lagðir eru í verkefnið og vilja íbúa til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.