Erlent

Skatta­mál og lofts­lags­mál helsti á­steytingar­steinninn

Atli Ísleifsson skrifar
Flest bendir til að Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz verði næsti kanslari Þýskalands.
Flest bendir til að Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz verði næsti kanslari Þýskalands. EPA

Líkur eru á að þýski Jafnaðarmannaflokkurinn (SPD), Græningjar og Frjálslyndir demókratar (FDP) muni ljúka könnunarviðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar fyrir lok þessarar viku. Helst er deilt um skattamál og loftslagsmál í viðræðunum.

Volker Wissing, framkvæmdastjóri Frjálslyndra demókrata, segist í samtali við þýska fjölmiðla reikna með að viðræðum ljúki í lok vikunnar og að þá tækju við formlegar viðræður milli flokkanna. Wissing segist bjartsýnn á framhaldið, en flokkarnir hafa annars lítið tjáð sig um framgang viðræðnanna.

Í Þýskalandi er rætt um væntanlegt stjórnarmynstur sem „umferðarljósið“ þar sem vísað er í einkennisliti flokkanna – rauðan lit Jafnaðarmannaflokksins, gulan lit Frjálslyndra demókrata (FDP) og grænan lit Græningja.

Flestir Þjóðverjar vilja „umferðarljósstjórn“

Deutsche Welle segir frá því að skoðanakannanir bendi til að 51 prósent Þjóðverja styðji myndun ríkisstjórnar flokkanna þriggja, umtalsvert fleiri en þeir sem styðja ríkisstjórnarmynstur með Kristilega demókrata, flokk kanslarans fráfarandi, Angelu Merkel, innanborðs.

Þingkosningar fóru fram í Þýskalandi 26. september þar sem SPD, með Olaf Scholz í broddi fylkingar, hlaut flest þingsæti og Kristilegir demókratar næstflest.

Niðurstöður þýsku kosninganna:

  • Sósíaldemókratar (SDP): 25,7%
  • Kristilegir demókratar (CDU-CSU): 24,1%
  • Græningjar: 14,8%
  • Frjálslyndir (FDP) 11,5%
  • Valkostur fyrir Þýskaland (AfD): 10,3%
  • Vinstriflokkurinn: 4,9%

Skattamálin og loftslagsmálin

SPD og Græningjar eru hugmyndafræðilega séð nokkuð líkir flokkar, en FDP sker sig nokkuð frá, sér í lagi þegar kemur að efnahagsmálum. Þýskir fjölmiðlar að flokkarnir hafi helst deilt um efnahags- og skattamál, sem og loftslagsmál.

SPD og Græningjar styðja hóflegar skattahækkanir en Frjálslyndir demókratar eru slíkum hugmyndum mjög andsnúnir. Þá vilja Frjálslyndir demókratar treysta meira á hinn frjálsa markað þegar kemur að baráttunni gegn loftslagsbreytingum en hinir flokkarnir tveir sem vilja beita ríkisvaldinu í meiri mæli.

Fari svo að samkomulag náist milli flokkanna fyrir helgi munu Græningjar þurfa að boða til flokksþings sem þyrfti að leggja blessun sína yfir samkomulagið. Flokkurinn hefur þó sagst munu geta haldið aukaflokksþing þegar á sunnudaginn til að afgreiða málið.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.