Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Portúgal 0-1 | Naumt tap í hörkuleik

Sverrir Már Smárason skrifar
Celton Biai hafði nóg að gera í portúgalska markinu.
Celton Biai hafði nóg að gera í portúgalska markinu. vísir/vilhelm

Íslenska landsliðið skipað leikmönnum undir 21 árs spilaði sinn þriðja leik í undankeppni EM U21 gegn Portúgal á Víkingsvelli í dag. Íslenska liðið spilaði góðan leik en uppskáru engin stig en leiknum lauk með 0-1 sigri Portúgal.

Fyrri hálfleikurinn var hinn fjörugasti þar sem báðir markmenn höfðu mikið að gera og má í raun segja að þetta hafi verið hálfleikur góðra markvarsla. Jökull Andrésson, markvörður Íslenska liðsins, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir U21 átti þá fyrstu eftir níu mínútna leik þegar hann varði frá Goncalo Ramos, leikmanni Benfica, sem hafði sloppið einn gegn Jökli.

Eftir það tók Íslenska liðið að mörgu leyti völdin á vellinum. Celton Biai, markvörður Portúgal, var maður leiksins framan af. Sævar Atli og Kristall Máni komust í sitthvor tvö góðu færin í fyrri hálfleik en í öll skiptin sá Celton við þeim. Svekkjandi fyrir Íslendingana að ná ekki að skora í fyrri hálfleiknum. Hálfleikstölur 0-0.

Sævar Atli Magnússon á ferðinni.vísir/vilhelm

Portúgalir gáfu aðeins í í upphafi síðari hálfleiks. Jökull varði vel frá Fabio Silva, leikmanni Wolves, á 54. mínútu en aðeins mínútu síðar voru Portúgal komnir 0-1 yfir. Finnur Tómas Pálmason var þá að hefja sókn líkt og oft áður en sending hans misheppnaðist. Goncalo Ramos komst inn í sendinguna og gaf strax á Fabio Vieira sem gerði vel og skoraði framhjá Jökli. Fabio Vieira var valinn leikmaður mótsins á EM U21 í sumar, virkilega öflugur leikmaður sem gerði frábærlega í þessu færi.

Íslenska liðið hélt áfram að reyna og því gekk vel í að spila út í gegnum pressu Portúgalska liðsins og hefðu getað skapað fleiri góð færi en þau komu ekki fyrr en í uppbótartíma. Það fyrra fékk Valgeir Lunddal Friðriksson eftir fyrirgjöf frá Kristalli Mána. Valgeir stökk þá upp með Celton Biai, vann eingvígið og kom boltanum yfir línuna en dómari leiksins, Robert Jenkins frá Wales, dæmdi Valgeir brotlegan. 

Fyrirliðinn Kolbeinn Þórðarson.vísir/vilhelm

Stuttu síðar tók Atli Barkarson aukaspyrnu frá miðjum velli og spyrnti inn í teig Portúgala þar sem markvörðurinn Jökull var mættur og vann fyrsta skallaboltann. Eftir mikinn dans fékk Kristall Máni möguleika á að skora sem hann nýtti ekki.

Portúgalir fóru hratt upp völlinn og skoruðu mark í opið markið en á þá var dæmd rangstæða svo engin fleiri mörk fengu að standa í dag. Lokatölur svekkjandi 0-1 tap í góðum leik Íslenska liðsins.

Af hverju vann Portúgal?

Það er erfitt að setja það á eitthvað annað en að þeir hafi bara skorað fleiri mörk. Íslenska liðið spilaði frábæran leik og fengu mörg góð færi en Portúgalir nýttu einu fleiri færi en Ísland og fara því heim með þrjú stig.

Hverjir stóðu upp úr?

Jökull Andrésson átti virkilega góðan fyrsta leik fyrir U21 landsliðið í dag. Öruggur í öllum aðgerðum, snöggur út af línunni og stýrir línunni vel.

Kristall Máni og Sævar Atli mynduðu mjög gott teymi fremst á vellinum. Komu hvorum öðrum í góð færi. Mjög spennandi framherjapar.

Varnarmenn Portúgals þurftu að hafa mikið fyrir því að stöðva Kristal Mána Ingason.vísir/vilhelm

Hafsentarnir þrír, Ísak Óli, Finnur Tómas og Valgeir Lunddal, auk Kolbeins Þórðarsonar lokuðu meira og minna allan leikinn á tvo bestu menn Portúgala fram á við. Nafnarnir Fabio Silva og Fabio Vieira sýndu engan veginn sín gæði í þessum leik, mikið til komið vegna varnarleiks Íslensku strákanna.

Hvað gekk illa?

Það segir sig sjálft að Ísland hefði þurft að skora í þessum leik og þeir fengu færin í það. Þó gerðist það líka of oft að Íslenska liðið kom sér í góðar stöður en klikkaði svo á einföldum sendingum og hleyptu Portúgal í opna sókn. Fínpússa spilið á síðasta þriðjungi og þetta lið getur náð ansi langt.

Hvað gerist næst?

Þetta var eini leikur Íslenska liðsins í þessum glugga en í nóvember spila þeir tvo leiki. Úti gegn Liechtenstein 12. nóvember og úti gegn Grikklandi þann 16. nóvember.

Potrúgalir leika tvisvar gegn Kýpur í nóvember. Fyrst úti þann 12. og síðan heima þann 16.

Jökull: Myndi segja að Portúgalir séu heppnir að fá þennan sigur

Jökull Andrésson fylgist með baráttu Valgeirs Lunddal Friðrikssonar og markaskorarans Fábios Vieira.vísir/vilhelm

Líkt og fyrr segir spilaði Jökull sinn fyrsta leik fyrir U21 landsliðið í dag. Hann ætlar að halda þeirri stöðu.

„Persónulega fannst mér sjálfum mér ganga bara mjög vel. Eina sem okkur langaði í dag var að vinna og mér fannst við óheppnir.“

„Auðvitað velur Davíð bara markmanninn sem hann langar að velja en ég ætla bara að gera mitt allra besta til að halda mér í þessu liði. Þetta er þar sem ég vil vera núna, mig langar að spila með þessum strákum þetta eru allt bestu vinir mínir. Það eina sem ég er að stefna á núna er að halda áfram að spila með þessu liði og við sjáum svo bara hvað gerist í framtíðinni,“ sagði Jökull um leikinn í dag og eigin frammtistöðu.

Markið sem Portúgal skoraði virkaði klaufalegt utan frá séð en Jökull var ekki sammála því. Liðið vill spila út frá marki og það vilji allir frekar að það sé reynt.

„Ég myndi ekki einusinni segja að þetta séu klaufa mistök. Við erum bara að reyna að spila út og auðvitað gerast svona hlutir fyrir alla. Ég vil miklu frekar að hann sé að reyna eitthvað sem við viljum gera og það virkar ekki. En þú sást hvað við vorum ógeðslega flottir hérna úti og við vorum að spila hvernig við viljum spila og ég myndi segja að Portúgalir séu heppnir að fá þennan sigur,“ sagði Jökull.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira