Fótbolti

Ekki búinn að spila heilan hálf­leik sam­tals en samt með tvö lands­liðs­mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar marki sínu á móti Liechtenstein á Laugardalsvellinum í gær.
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar marki sínu á móti Liechtenstein á Laugardalsvellinum í gær. Vísir/Vilhelm

Andri Lucas Guðjohnsen var aftur á skotskónum með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu og hefur nú skorað í tveimur mótsleikjum fyrir landsliðið þrátt fyrir að eiga enn eftir að byrja landsleik.

Mark Andra Lucasar gladdi marga í gærkvöldi en hann innsiglaði þá 4-0 sigur á Liechtenstein eftir að hafa fengið stoðsendingu frá eldri bróður sínum Sveini Aroni Guðjohnsen.

Andri Lucas hafði einnig skorað á móti Norður Makedóníu í síðasta glugga en hann tryggði íslenska liðinu þá jafntefli.

Alls hafa landsliðsþjálfararnir Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sett strákinn fjórum sinnum inn á sem varamann undir lok leikja í haust. Í báðum mörkunum hefur þessi nítján ára strákur sýnt að hann er markaskorari af guðs náð.

Þessi frammistaða Andra þýðir um leið að hann er ekki búinn að spila heilan hálfleik, þegar kemur að mínútum í landsleikjum, en er samt kominn með tvö A-landsliðsmörk.

Alls hefur Andri Lucas spilað í 39 mínútur í þessum fjórum fyrstu landsleikjum sínum.  Hann er því með mark á tuttugu mínútna fresti með íslenska landsliðinu.

Hann skoraði tveimur mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður á móti Norður Makedóníu og það þurfti bara að bíða í níu mínútur eftir að hann kom boltanum í markið á móti Liechtenstein í gær.

Faðir hans, Eiður Smári Guðjohnsen, skoraði náttúrulega síðasta landsliðsmark sitt í 4-0 sigri á Liechtenstein á Laugardalsvelli í júní 2016.

Eiður Smári skoraði sitt annað landsliðsmark á sínum tíma í sinum ellefta landsleik og afinn Arnór Guðjohnsen beið í nítján landsleiki eftir sínu öðru landsliðsmarki.

  • Mínútur hjá Andra Lucasi Guðjohnsen með A-landsliðinu:
  • -
  • 2. september á móti Rúmeníu: 11 mínútur
  • 5. september á móti Norður Makedóníu: 8 mínútur og 1 mark
  • 8. september á móti Þýskalandi: 10 mínútur
  • 11. október á móti Liechtenstein: 10 mínútur og 1 mark
  • -
  • Samtals: 39 mínútur og 2 mörkFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.