Fótbolti

Davíð Snorri um leikinn gegn Portúgal: „Þrjú stig er það sem við viljum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Davíð Snorri þjálfar íslenska U-21 árs landsliðið.
Davíð Snorri þjálfar íslenska U-21 árs landsliðið. Vísir/Sigurjón

„Þetta er lið sem er mjög sigursælt í yngri landsliðum, góð hefð fyrir því hjá þeim. Eru með frábæra einstaklinga og hafa byrjað mótið gríðarlega vel,“ sagði Davíð Snorri Jónasson, þjálfari íslenska U-21 árs landsliðsins í knattspyrnu, fyrir leik dagsins gegn Portúgal.

Ísland er með fjögur stig að loknum tveimur leikjum í undankeppni EM 2023 á meðan Portúgal er á toppi riðilsins með markatöluna 12-0. Liðið vann 11-0 sigur á Liechtenstein síðast og kemur því til Íslands með sjálfstraustið í botni.

Leikur dagsins hefst klukkan 15.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

„Þeir eru með mjög beinskeytt lið sem er mjög ógnandi. Við þurfum því að vera 100 prósent á tánum. Ég myndi segja að helstu styrkleikar séu að þeir eru góðir að spila inn í milli-svæðin og þaðan annað hvort að „breika“ á leiðin eða koma boltanum út og fá krossa.“

Það er svona það sem við höfum lesið úr þeirra leikjum og þeir eru mjög „aggressífir“ þegar kemur að því að koma sér inn í boxið og mjög miskunnarlausir (e. ruthless),“ sagði þjálfarinn um styrkleika Portúgals.

Klippa: Stefnir á sigur gegn Portúgal

„Þeir eru búnir að spila tvo leiki og hafa að okkar mati farið pínu pressulausir í gegnum það svo við þurfum nú að láta hugsa aðeins hraðar og spyrja þá nokkurra spurninga.“

„Ég er mjög ánægður með hópinn og er með alla leikmenn sem ég gat valið úr.“

„Við stefnum á að búa til þannig umhverfi að við verðum klárir með okkar leikplan og getum í rauninni tekið þrjú stig. Svo verðum við að meta hvernig leikurinn er og ef eitt stig er niðurstaðan þá tökum við það. Við setjum leikinn þannig upp að við ætlum að láta þá snúa sér við, hreyfa sig og koma þeim aðeins á óvart. Þrjú stig er það sem við viljum.“

Frá æfingu íslenska landsliðsins.Vísir/Sigurjón

„Við ætlum að reyna byrja á því að fara aðeins á þá. Það er það sem við reynum að gera í hverjum einasta leik, að finna plan til að stíga hátt og vera ekki negldir við teiginn allan tímann. Vissulega munu koma tímar þar sem við þurfum að vera einbeittir, standa á teignum, gera það vel og bara elska að spila góða vörn,“ sagði Davíð Snorri Jónasson að endingu.

Leikur Íslands og Portúgals hefst klukkan 15.00 og er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Útsending hefst klukkan 14.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×