Fótbolti

Noregur náði í stig í Tyrk­landi | Norður-Makedónía skoraði fjögur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristian Thorstvedt tryggði Noregi stig í Tyrklandi.
Kristian Thorstvedt tryggði Noregi stig í Tyrklandi. Emrah Yorulmaz/Getty Images

Fjöldinn allur af leikjum fór fram í undankeppni HM 2022 í kvöld. Noregur náði í stig í Tyrklandi þrátt fyrir að vera án Erling Braut Håland. Þá vann N-Makedónía 4-0 sigur á Liechtenstein.

Aaron Ramsey og Daniel James skoruðu mörk Wales í 2-2 jafntefli ytra gegn Tékklandi í E-riðli. Í hinum leik riðilsins vann Eistland 2-0 sigur á Hvíta-Rússlandi. Belgía er sem fyrr á toppi E-riðils með 16 stig að loknum sex leikjum. Þar á eftir koma Tékkar og Walesverjar með 8 stig.

Kerem Aktürkoglu kom Tyrklandi yfir gegn Norðmönnum strax á sjöttu mínútu en hinn ungi Kristian Thorstvedt jafnaði metin fyrir gestina undir lok fyrri hálfleiks. Staðan 1-1 í hálfleik og reyndust það lokatölur.

Svartfjallaland vann 3-0 útisigur á Gíbraltar og Holland marði Lettland 1-0 á útivelli þökk sé marki Davy Klaassen. Hollendingar tróna á toppi G-riðils með 16 stig eftir 7 umferðir. Noregur kemur þar á eftir með 14 stig og Tyrkland er í 3. sæti með 12 stig.

Í H-riðli vann Króatía 3-0 sigur ytra gegn Kýpur, Slóvenía vann 4-0 útisigur á Möltu og Rússland vann 1-0 sigur á Slóvakíu.

Króatía og Rússland eru með 16 stig á toppnum á meðan Slóvenía er í 3. sæti H-riðils með 10 stig.

Þá vann Norður-Makedónía 4-0 sigur á Liechtenstein í riðli okkar Íslendinga. Íslenska liðið gerði 1-1 jafntefli við Armeníu fyrr í kvöld og þá unnu Þjóðverjar nauman 2-1 sigur á Rúmeníu.


Tengdar fréttir

Thomas Müller hetja Þýska­lands

Þýskaland vann nauman 2-1 sigur á Rúmeníu í undankeppni HM 2022 í fótbolta í kvöld. Thomas Müller kom Þjóðverjum til bjargar á ögurstundu en gestirnir komust yfir snemma leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×