Umfjöllun: Ís­land - Armenía 1-1 | Ísak bjargaði stigi gegn Armenum

Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Viðar Örn Kjartansson og Guðlaugur Victor Pálsson mótmæla markinu þar sem boltinn fór út af áður en sókn Armena hófst.
Viðar Örn Kjartansson og Guðlaugur Victor Pálsson mótmæla markinu þar sem boltinn fór út af áður en sókn Armena hófst. Vísir/Jónína Guðbjörg

Ísland og Armenía skildu jöfn, 1-1, í undankeppni heimsmeistaramótsins 2022 á Laugardalsvelli í kvöld.

Kamo Hovhannisyan kom Armeníu yfir á 35. mínútu með marki sem hefði aldrei átt að standa þar sem boltinn fór út af vellinum í aðdraganda þess. Ísak Bergmann Jóhannesson, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik, jafnaði fyrir Ísland á 77. mínútu með sínu fyrsta landsliðsmarki. Hann er jafnframt yngsti leikmaðurinn sem hefur skorað fyrir íslenska A-landsliðið.

Ísland byrjaði leikinn af krafti og var betri fyrri hluta fyrri hálfleiks. Um miðbik hans náði Armenía betri tökum á leiknum og komst yfir. Í seinni hálfleik héldu Armenar svo Íslendingum þægilega í skefjum framan af. En íslenska liðið náði að opna armensku vörnina þegar Ísak skoraði jöfnunarmarkið og eftir það voru Íslendingar sterkari aðilinn án þess þó að ógna armenska markinu að neinu ráði.

Íslendingar eru áfram í fimmta og næstneðsta sæti J-riðils en nú með fimm stig. Næsti leikur Íslands er gegn Liechtenstein á mánudaginn. Það er jafnframt síðasti heimaleikur íslenska liðsins í undankeppninni.

Elías Rafn Ólafsson, sem hefur slegið í gegn með Midtjylland á undanförnum vikum, byrjaði í markinu og Jón Dagur Þorsteinsson fékk einnig langþráð tækifæri á vinstri kantinum. Hann var besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum ásamt Ísaki sem átti prýðis góða innkomu.

Kraftmikil byrjun

Íslenska liðið var sterkari aðilinn fyrri hluta fyrri hálfleiks. Íslendingar héldu boltanum ágætlega og áttu kröftugar sóknir þar sem Albert Guðmundsson og Jón Dagur voru á áberandi á sitt hvorum kantinum. Ísland átti slatta af skotum en þau fóru flest í varnarmenn Armeníu og David Yurchenko þurfti ekkert að hafa fyrir hlutunum í markinu.

Á 11. mínútu komst Albert einn í gegn hægra megin í vítateig Armeníu, lék á Yurchenko en skaut framhjá úr þröngu færi.

Átta mínútum síðar átti Jón Dagur flottan sprett fram vinstri kantinn og sendi boltann út í vítateiginn á Viðar Örn Kjartansson sem skaut naumlega framhjá. Á 23. mínútu átti Jón Dagur aðra fyrirgjöf en Guðlaugur Victor Pálsson skallaði framhjá.

Mkhitaryan minnti á sig

Eftir því sem á leið fyrri hálfleikinn náði Armenía betri tökum á leiknum. Henrikh Mkhitaryan byrjaði að finna sér svæði og gera sig gildandi.

Á 33. mínútu átti hann fyrirgjöf frá vinstri á Sargis Adamyan sem skallaði yfir markið. Íslendingar fengu þarna viðvörun en tóku hana ekki nógu alvarlega.

Tveimur mínútum síðar sendi Lucas Zelarayán fyrir frá hægri á fjærstöng þar sem Hovhannisyan skoraði með góðu skoti á loftið í fjærhornið. Markið átti þó aldrei að standa eins og áður sagði.

Mkhitaryan hélt áfram að ógna og tveimur mínútum eftir markið átti hann skot sem fór af varnarmanni og rétt framhjá.

Breytingar í hálfleik

Arnar Þór gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik. Daníel Leó Grétarsson kom inn á í miðja vörnina fyrir Brynjar Inga Bjarnason og Ísak leysti Viðar af hólmi. Ísak fór inn á miðjuna, Þórir Jóhann Helgason á hægri kantinn og Albert tók stöðu Viðars í fremstu víglínu.

Á 54. mínútu átti Ísland góða sókn fram hægri kantinn, Þórir Jóhann sendi boltann út í teiginn á Ísak sem átti skot sem Yurchenko varði. Fjórum mínútum síðar slapp Adamyan í gegn en Birkir Már komst fyrir skot hans.

Íslenska liðið sótti af veikum mætti framan af í seinni hálfleik og armenska vörnin þurfti ekki að hafa mikið fyrir hlutunum.

Fallegt jöfnunarmark

Ísak var líklegasti leikmaður Íslands og átti ágætis skot framhjá á 71. mínútu. Jöfnunarmarkið kom svo sex mínútum síðar og var glæsilegt.

Albert átti þá frábæra sendingu upp í hægra hornið á Birki Má sem kom boltanum fyrir á Ísak sem stýrði boltanum í fjærhornið.

Ísak Bergmann fagnaði með því að senda fingurkossa upp í stúku.Vísir/Jónína Guðbjörg

Jöfnunarmarkið blés íslenska liðinu aukinn byr í brjóst og það var sterkari aðilinn það sem eftir lifði leiks. Það skapaði sér þó engin afgerandi færi. Sömu sögu var reyndar að segja af Armeníu.

Lokatölur 1-1 í kaflaskiptum leik. Frammistaðan var misjöfn en Íslendingar sýndu samt styrk að koma til baka og það var ágætis kraftur í liðinu á köflum.

Íslenska landsliðið er í uppbyggingarferli sem er sársaukafullt og hlutirnir gætu orðið enn verri áður en þeir vonandi góðir aftur. Það væri samt óskandi að fá fleiri vísbendingar um að liðið sé á leið í rétta átt.


Tengdar fréttir

Ísak Berg­mann um fagnið: „Kærastan fékk kossana“

„Tilfinningin var bara góð. Við erum samt svekktir að ná ekki að vinna leikinn á heimavelli. Fannst við vera með tökin lungann úr leiknum svo þetta er svekkjandi,“ sagði markaskorari Íslands, Ísak Bergmann Jóhannesson, í viðtali að leik loknum.

Elías Rafn: Svekktur með úrslitin

Íslenska landsliðið var með nýjan markvörð í markinu í kvöld en Elías Rafn Ólafsson fékk þá traustið. Hann náði þó ekki að halda markinu hreinu eins og í síðustu fimm leikjum sínum í dönsku deildinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira