Zelarayán, sem er fæddur og uppalinn í Argentínu, mætti á sína fyrstu æfingu hjá armenska landsliðinu í Frankfurt í Þýskalandi á þriðjudaginn. Armenski hópurinn flaug svo til Íslands í gær og æfði í gjólunni á Laugardalsvelli fyrir leikinn mikilvæga í kvöld.
Ástæðan fyrir því að Zelarayán getur spilað fyrir Armeníu er sú að pabbi hans er ættaður frá landinu. Þessi 29 ára gamli stjörnuleikmaður meistaraliðs Columbus Crew, í bandarísku MLS-deildinni, viðurkennir hins vegar að það sé bara vegna fótboltans sem hann hafi nú þegið boð um að spila fyrir Armeníu.
SURPRISE SURPRISE @Lucazelarayan31 has something to tell you
— Official Armenian FF (@OfficialArmFF) September 28, 2021
"Barev, Hayastan
You'll see me playing for Armenian National team soon.
I hope we will achieve great success together .
See ya #Zelarayan #Armenia #ArmenianNT pic.twitter.com/G9dUO3zeYi
„Ég hef aldrei komið til Armeníu svo að þannig mætti segja að ég hafi ekki tengingu þangað. En ég hef alltaf vitað að eftirnafnið mitt væri armenskt og að ég ætti ættir að rekja þangað, svo að þó að þetta snúist um fótboltann þá er fjölskyldutenging líka,“ sagði Zelarayan.
Zelarayan var keyptur fyrir metfé til Columbus Crew fyrir tímabilið 2020 og hefur skorað 13 mörk og gefið átta stoðsendingar í 42 deildarleikjum fyrir liðið.
Áður hafði hann staðið sig vel með liði Tigres í Mexíkó og það var þá sem armenska knattspyrnusambandið reyndi fyrst að fá hann til að spila með landsliðinu. Þá hafnaði hann boðinu en nú er hann mættur til Íslands og tilbúinn að spila sinn fyrsta landsleik en Zelarayan hefur aldrei spilað fyrir yngri landslið Argentínu.
„Ef maður á að vera raunsær þá veit ég að ég á ekki mikla möguleika á að komast í argentínska landsliðið. Þetta [að spila fyrir Armeníu] er frábært tækifæri fyrir mig til að spila í undankeppni HM, gegn frábærum leikmönnum sem ég hef ekki fengið tækifæri til að mæta. Það mun bara hjálpa mér til lengri tíma litið,“ sagði Zelarayan.