Fótbolti

Yngsti leik­maður Spánar frá upp­hafi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pablo Gavira varð í kvöld yngsti leikmaður sögunnar til að spila fyrir spænska A-landsliðið í fótbolta.
Pablo Gavira varð í kvöld yngsti leikmaður sögunnar til að spila fyrir spænska A-landsliðið í fótbolta. Getty Images

Hinn 17 ára gamli Pablo Gavira, kallaður Gavi, varð í kvöld yngsti leikmaður spænska A-landsliðsins í knattspyrnu frá upphafi er liðið tryggði sér sæti í úrslitum Þjóðadeildarinnar. Gavi hefur aðeins leikið sjö leiki fyrir aðallið Barcelona.

Tvenna Ferran Torres tryggði Spánverjum 2-1 sigur á Ítalíu er liðin mættust í Mílanó í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar í kvöld. Hinn 17 ára og 62 daga gamli Pablo Gavira var í byrjunarliði Spánar þrátt fyrir að hafa aðeins spilað sjö leiki fyrir aðallið Barcelona.

Luis Enrique, þjálfari spænska landsliðsins, hrósaði táningnum í hástert að leik loknum en Gavi spilaði 84 mínútur á þriggja manna miðju Spánar í kvöld.

„Hann spilar fótbolta eins og hann sé að leika sér út í garði. Það er ánægjulegt að sjá leikmenn með hæfileika á borð við hann sem og karakter. Gavi á augljóslega framtíðina fyrir sér í spænska landsliðinu eins og fleiri.“

Þá sagði Enrique að það skipti hann litlu máli hvort Spánn myndi mæta Frakklandi eða Belgíu í úrslitum.

„Bæði lið eru mjög sterk og sama hvort þeirra kemst í úrslit þá munum við reyna að valda þeim vandræðum og vinna þennan titil,“ sagði Enrique að endingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.