Fótbolti

Sjáðu mörkin: Harder bjargaði stigi gegn gömlu liðs­fé­lögunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Chelsea fagna marki Pernille Harder í kvöld.
Leikmenn Chelsea fagna marki Pernille Harder í kvöld. Chelsea

Pernille Harder kom Chelsea til bjargar gegn sínum gömlu liðsfélögum í Wolfsburg er þau mættust í Meistaradeild Evrópu í kvöld, lokatölur 3-3 í Lundúnum. Varnarleikur Chelsea var ekki upp á marga fiska í leik kvöldsins.

Samantha Kerr kom Chelsea yfir eftir 13 mínútur. Hún lyfti boltanum þá einkar snyrtilega yfir Almuth Schult í marki gestanna. 

 Gestirnir lögðu ekki árar í bát og jöfnuðu aðeins rúmum fimm mínútum síðar. Tabea Wassmuth skoraði þá eftir sendingu Lenu Oberdorf. Það var hins vegar aðallega skelfilegur varnarleikur Chelsea sem bjó til mark gestanna.

Hollenska landsliðskonan Jill Roord kom Wolfsburg svo í 2-1 á 34. mínútu og aftur var það Oberdorf sem lagði upp mark gestanna. Markið kom eftir illa útfært uppspil Chelsea frá markverði.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og Englandsmeistarar Chelsea undir í hálfleik. Wassmuth kom Wolfsburg í 3-1 snemma í síðari hálfleik eftir skelfilega sendingu Jessicu Carter til baka sem Wassmuth nýtti sér til hins ítrasta.

Útlitið var þarna orðið ansi svart fyrir heimakonur. Bethany England minnkaði hins vegar muninn þremur mínútum síðar og staðan 3-2 þegar 40 mínútur voru til leiksloka. Á endanum var það hin danska Pernille Harder sem kom Chelsea til bjargar en hún jafnaði metin þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Lokatölur 3-3 og liðin þurftu því að sættast á jafnan hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×