Innlent

Salvör kjörin for­maður sam­taka um­boðs­manna barna í Evrópu

Atli Ísleifsson skrifar
Salvör Nordal tekur við formennskunni á ársfundi samtakanna að ári. Sá fundur verði haldinn í Reykjavík.
Salvör Nordal tekur við formennskunni á ársfundi samtakanna að ári. Sá fundur verði haldinn í Reykjavík. Vísir

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, var kjörinn formaður ENOC, samtaka umboðsmanna barna í Evrópu, á ársfundi samtakanna þann 29. september síðastliðinn.

Í tilkynningu frá skrifstofu umboðsmanns barna segir að Salvör taki við formennskunni á ársfundi samtakanna að ári. Sá fundur verði haldinn í Reykjavík.

„Salvör hefur setið í stjórn samtakanna síðustu tvö ár en hún er fyrsti íslenski umboðsmaður barna til að eiga sæti í stjórn ENOC og fá kosningu sem formaður samtakanna.

Í samtökum umboðsmanna barna í Evrópu eiga flest embætti umboðsmanna barna í Evrópu aðild og eru þau afar mikilvægur vettvangur fyrir alþjóðlega samræðu og samstarf um réttindi barna. Í tengslum við árlegan ársfund samtakanna, sem nú var haldinn í Aþenu, er jafnframt haldin ráðstefna um tiltekið meginþema. Nýafstaðin ráðstefna fjallaði um áhrif Covid-19 á börn en á fundinum í Reykjavík á næsta ári verður umfjölllunarefnið loftslagsbreytingar út frá réttindum barna. Á vegum samtaka evrópskra umboðsmanna starfar einnig ENYA, evrópsk samstarfsnet ráðgjafarhópa barna, og taka fulltrúar ENYA mikinn þátt í starfi samtakanna, ekki síst hinum árlega fundi. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna á Íslandi hefur á síðustu árum tekið virkan þátt í starfi ENYA en það er einstakur vettvangur fyrir fulltrúa þeirra til að eiga samtal við börn annars staðar í Evrópu og skiptast á sjónarmiðum og reynslu,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×