Enski boltinn

Barcelona gæti reynt að fá Raheem Sterling í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling og Nathan Ake fagna marki Manchester City.
Raheem Sterling og Nathan Ake fagna marki Manchester City. EPA-EFE/Andrew Yates

Sterling er ekki lengur fastamaður hjá Pep Guardiola hjá Manchester City og það er áhugi á enska landsliðsmanninum í Katalóníu ef marka má fréttir þaðan.

Spænska blaðið Mundo Deportivo, sem er frá Barcelona, slær því upp í morgun að Barcelona hafi áhuga á því að fá Raheem Sterling frá Manchester City þegar félagsskiptaglugginn opnar í janúar.

Barcelona hefur þá aðeins möguleika á því að fá Sterling á láni en leikmaðurinn er með samning við Manchester City út 2022-23 tímabilið.

Barcelona missti auðvitað bæði Lionel Messi og Antoine Griezmann í sumar og þá hafa þeir Sergio Agüero og Ousmane Dembélé verið að glíma við meiðsli.

Það hefur ekki verið rismikill sóknarleikur hjá Barcelona liðinu í upphafi tímabils og þeir hafa hvorki skorað né náð skoti á mark í fyrstu tveimur leikjunum í Meistaradeildinni.

Raheem Sterling hefur aðeins skorað eitt mark í tíu leikjum í öllum keppnum með Manchester City á leiktíðinni. Sterling hefur aðeins byrjað 3 af 9 leikjum í úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni og var tekin af velli í tveimur af þremur byrjunarliðsleikjum sínum.

Mikið hefur verið rætt og skrifað um slæma fjárhagsstöðu Barcelona en það lítur þó út fyrir það samkvæmt frétt Mundo Deportivo að verði þó einhverjir peningar í boði fyrir nýja leikmenn í janúar.

Sterling hefur verið orðaður við Barcelona áður en nú færist aftur kraftur í það fótboltaslúður með þessum fréttum frá Spáni.

Það er þó ekki aðeins rætt um mögulega komu hins 26 ára gamla Raheem Sterling heldur einnig gæti spænski landsliðsmaðurinn Dani Olmo verið á leiðinni til Börsunga. Olmo er 23 ára vængmaður sem spilar með RB Leipzig í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×