Enski boltinn

Rosa­leg velta á þjálfurum Wat­ford: Fjór­tán á tíu árum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Quique Sanchez Flores hefur tvívegis verið ráðinn þjálfari Watford undanfarinn áratuga og tvívegis verið rekinn.
Quique Sanchez Flores hefur tvívegis verið ráðinn þjálfari Watford undanfarinn áratuga og tvívegis verið rekinn. EPA-EFE/PETER POWELL

Enska knattspyrnufélagið Watford rak á laugardag Francisco Javier Muñoz Llompart – kallaður Xisco – en hann hafði stýrt liðinu frá því í desember á síðasta ári. Hann er þrettándi þjálfari félagsins á síðustu tíu árum.

Xisco tók við starfinu af Vladimir Ivić en sá hafði aðeins verið í starfi í fjóra mánuði. Það er deginum ljósara að ef Gino Pozzo, eiganda féalgsins, líkar ekki það sem hann sér þá fá menn stígvélið og það tafarlaust.

Nýliðar Watford eru með sjö stig að loknum sjö umferðum í ensku úrvalsdeildinni sem telur vera ásættanleg byrjun fyrir flesta nýliða en Pozzo vill meira og það strax. Pozzo keypti félagið í júní 2012 og hefur verið meirihlutaeigandi frá árinu 2014.

Frá því hann keypti félagið hafa Gianfranco Zola, Giuseppe Sannino, Óscar Garcia Junyent, Billy McKinlay, Slaviša Jokanović, Quique Sánchez Flores, Walter Mazzarri, Marco Silva, Javi Gracia, Quique Sánchez Flores (aftur), Hayden Mullins (tvívegis sem bráðabirgðarstjóri) og Nigel Pearson stýrt liðinu ásamt herramönnunum tveimur nefndum hér að ofan.

Talið er líklegast að hinn 69 ára gamli Claudio Ranieri taki við þjálfun liðsins en hann gerði Leicester City eftirminnilega að Englandsmeisturum árið 2016. Hvor hann endist út tímabilið á eftir að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×