Erlent

Segir Thicke hafa káfað á sér við tökur myndbands Blurred Lines

Samúel Karl Ólason skrifar
Emily Ratajkowski og Robin Thicke í myndbandinu við lagið Blurred Lines.
Emily Ratajkowski og Robin Thicke í myndbandinu við lagið Blurred Lines.

Fyrirsætan Emily Ratajkowski segir tónlistarmanninn Robin Thicke hafa káfað á sér við tökur á frægu myndbandi lagsins Blurred Lines frá 2013. Í nýrri bók segir hún Thicke hafa gripið um ber brjóst hennar.

Ratajkowski var ein þriggja fyrirsæta sem birtist léttklædd í myndbandinu við lag Thicke, Pharrell Williams og rapparans T.I.. Lagið naut mikilla vinsælda og myndbandið sömuleiðis.

Í bók sem gefa á út í næsta mánuði segist Ratajkowski upphaflega hafa skemmt sér vel við tökur myndbandsins, samkvæmt frétt Times. Þar til Thicke hafi komið aftan að henni og gripið um bæði brjóst hennar.

Diane Martel, leikstjóri myndbandsins, staðfesti þessa frásögn Ratajkowski í samtali við Times og segist hún hafa gargað á Thicke og spurt hann hvern fjandann hann hafi verið að gera. Þá hafi Thicke orðið skömmustulegur en Martel telur hann hafa verið ölvaðan við tökurnar.

Árið 2015 komst kviðdómur að þeirri niðurstöðu að tónlistarmennirnir þrír hefðu líkt eftir lagi Marvin Gaye, Got To Give it Up, þegar þeir sömdu Blurred Lines.

Sjá einnig: Óttast fordæmið sem Blurred Lines-dómurinn mun hafa á bransann

Þegar myndbandið við Blurred Lines var tekið upp var Thicke giftur Paulu Patton og átti hann barn með henni. Síðan þá eru þau skilin og hefur dómari skipað honum að halda sig fjarri þeim báðum. Patton sakaði hann um ofbeldi, neyslu fíkniefna og framhjáhald.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×