Innlent

Hrútar og gimbrar í aðalhlutverki á Raufarhöfn í dag

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fallegir hrútar víða að munu koma fram á hrútasýningunni á Raufarhöfn í dag þar sem dómarar munu þukla og stiga þá. Einning verður fegurðarsamkeppni gimbra.
Fallegir hrútar víða að munu koma fram á hrútasýningunni á Raufarhöfn í dag þar sem dómarar munu þukla og stiga þá. Einning verður fegurðarsamkeppni gimbra. Halla Eygló Sveinsdóttir

Íslenska sauðkindin verður í aðalhlutverki á Raufarhöfn í dag því þar fer fram hrútadagur með tilheyrandi hrútasýningu. Einnig verður fegurðarsamkeppni gimbra.

Mikið af fallegu sauðfé er á sauðfjárræktarbúum í sveitunum í kringum Raufarhöfn og því þykir vel við hæfi að vera með sérstakan hrútadag í þorpinu, sem er líka hluti af bæjarhátíð staðarins.

Ingibjörg H. Sigurðardóttir er í forsvari fyrir Hrútadaginn.

„Hér verður mikið um að vera í dag enda fólkið byrjað að týnast inn á staðinn, ásamt hrútunum. Það verður hrútasýning og svo verða krakkarnir með fegurðarsamkeppni gimbra og veitt verða verðlaun fyrir það. Svo verður fullt af sölubásum og alls konar sem fylgir þessu. Svo í kvöld verða Hvanndalsbræður með tónleika í félagsheimilinu hjá okkur,“ segir Ingibjörg.

„Já, það er það, hér er fallegt sauðfé og hér eru forystukindurnar líka. Hrútadagurinn hefur verið mjög vinsæll í gegnum árin og ég vona að svo verði líka í dag. Íslenska sauðkindin er náttúrulega bara flottasta kind, sem finnst í veröldinni vil ég meina. Við eigum bara að vera stolt af íslensku sauðkindinni, sem hefur haldið í okkur lífi í gegnum aldirnar,“ bætir Ingibjörg við aðspurð um sauðféð á svæðinu.

Þá má geta þess að á morgun verður léttmessa í kirkjunni á Raufarhöfn í tilefni af hrútadeginum og menningarviku, sem lýkur þá formlega á morgun, sunnudag.

Hrútadagurinn hefur alltaf notið mikilla vinsælda á Raufarhöfn.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×