Innlent

Hvalreki á Álftanesi

Eiður Þór Árnason skrifar
Þessi mynd var tekin í fjörunni að morgni fimmtudagsins 30. september.
Þessi mynd var tekin í fjörunni að morgni fimmtudagsins 30. september. Vísir/Vilhelm

Hval hefur rekið á land á Álftanesi og liggur hræið nú í fjöru. Lögreglu var tilkynnt um dýrið seint í dag og verður það skoðað nánar í fyrramálið. 

Talið er að um sé að ræða skíðishval sem er yfirtegund fjórtán mismunandi hvalategunda. Vísindamenn stefna á að skera úr um aldur og tegund hvalsins á morgun þegar sýni verður jafnframt tekið úr hræinu. 

Þetta staðfestir Guðbrandur Örn Arnarson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg en björgunarsveitir hafa stundum tekið þátt í því að reyna að koma lifandi hvölum aftur á flot.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hval rekur á land á Álftanesi. Vísir/vilhelm

„Ef dýrið er dautt og hræið er nálægt byggð þá þarf yfirleitt annað hvort að draga það út á sjó eða urða það á staðnum, þetta er heilbrigðismál í raun og veru,“ segir Guðbrandur í samtali við Vísi en takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um hvalinn að svo stöddu.  

Hann telur ólíklegt að frekar verði aðhafst í nótt en Landsbjörg mun ekki koma frekar að málinu þar sem dýrið sé ekki á lífi. Guðbrandur segir að flókið ferli taki við þegar hvalur finnist á landi og málið sé nú komið í farveg hjá Hafrannsóknarstofnun, Umhverfisstofnun, heilbrigðiseftirlitinu, lögreglu og fleiri aðilum. 

Fréttin var uppfærð með mynd af hvalhræinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×