Erlent

Allar líkur á að Kis­hida taki við em­bætti for­sætis­ráð­herra af Suga

Atli Ísleifsson skrifar
Yoshihide Suga og nýkjörinn formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins í Japan, Fumio Kishida.
Yoshihide Suga og nýkjörinn formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins í Japan, Fumio Kishida. AP

Stjórnarflokkur Japans, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, hefur valið Fumio Kishida sem nýjan formann. Fastlega er búist við að Kishida verði skipaður forsætisráðherra á allra næstu dögum og taki þar með við embættinu af Yoshihide Suga.

Suga tilkynnti í byrjun mánaðar að hann hugðist ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður flokksins, og þar með forsætisráðherra, eftir um ár í embætti.

Hinn 64 ára Kishida gegndi embætti utanríkisráðherra landsins á árunum 2012 til 2017, auk þess að hafa setið á þingi frá árinu 1993 fyrir Hiroshima. Hann hafði betur gegn ráðherranum Taro Kono í baráttu um formannsstólinn.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn og samstarfsflokkar hans eru með meirihluta á japanska þinginu og eru því allar líkur á að Kishida verði staðfestur í embætti forsætisráðherra. Einnig er búist við að flokkarnir verði með meirihluta eftir þingkosningar sem fram fara í landinu í nóvember.

Ný stefna í efnahagsmálum

Kishida hefur talað fyrir nauðsyn þess að auka hagvöxt og fyrir breytingum á stefnu Japans í efnahagsmálum, þeirri sem Shinzo Abe, sem var forsætisráðherra landsins á árunum 2012 til 2020, lagði grunninn að. Vill Kishida meina að sú stefna þjóni fyrst og fremst stórfyrirtækjum.

Fréttaskýrendur segja að litið sé á Kishida innan Frjálslynda lýðræðisflokksins sem leiðtoga til langs tíma.

Suga tilkynnti 3. september að hann hugðist draga sig í hlé, en hann hafði sætt gagnrýni vegna stefnu stjórnar hans í faraldursmálum og sömuleiðis voru margir Japanir óánægðir með þá ákvörðun að halda Ólympíuleika í miðjum heimsfaraldri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×