Enski boltinn

Bruno heitir því að koma sterkari til baka eftir að Martínez tók hann á taugum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær hughreystir Bruno Fernandes eftir leikinn.
Ole Gunnar Solskjær hughreystir Bruno Fernandes eftir leikinn. EPA-EFE/Peter Powell

Bruno Fernandes klikkaði á vítaspyrnu á úrslitastundu í tapleik Mancheter United í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Bruno tók vítið þrátt fyrir að Cristiano Ronaldo væri inni á vellinum.

Einn maður sem vakti sérstaklega athygli á því að Ronaldo væri inn á vellinum var Emiliano Martínez, markvörður Aston Villa. Martínez benti á Ronaldo og kallaði nafn hans ítrekað á meðan Bruno var að stilla boltanum upp á vítapunktinum.

Aðhlaup Bruno Fernandes var líka gjörólíkt því sem við eigum að venjast og skotið hans endaði lengst upp í stúku.

Bruno skrifaði um klúðrið á samfélagsmiðlum sínum.

„Það er enginn pirraðri eða vonsviknari en ég eftir að ég klikkaði á þessu víti og við töpuðum leiknum,“ skrifaði Bruno Fernandes á samfélagsmiðla sína.

„Gagnrýni og ólíkar skoðanir eru stór hluti af fótboltanum. Ég hef lært að lifa með því og nota slíkt til að drífa mig áfram. Það er líka mikilvægt fyrir mig að hætta aldrei að reyna að bæta minn leik,“ skrifaði Bruno.

„Ég mun koma sterkari til baka, bæði fyrir liðsfélagana og fyrir stuðningsmennina sem hafa alltaf staðið við bakið á okkur,“ skrifaði Bruno.

Hann segist óttast ekkert og sé því tilbúinn að taka næsta víti liðsins. Hvort að hann fái það er þó undir Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóra liðsins komið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×