Fótbolti

Varaforsetinn útdeildi seðlum í klefanum

Sindri Sverrisson skrifar
Súrínam er 600.000 manna þjóð sem hlaut sjálfstæði frá Hollandi árið 1975. Ronnie Brunswijk er varaforseti landsins en einnig fótboltamaður, og enn að spila þrátt fyrir að vera orðinn sextugur. Eftir leik útdeildi hann seðlum í búningsklefa mótherjanna.
Súrínam er 600.000 manna þjóð sem hlaut sjálfstæði frá Hollandi árið 1975. Ronnie Brunswijk er varaforseti landsins en einnig fótboltamaður, og enn að spila þrátt fyrir að vera orðinn sextugur. Eftir leik útdeildi hann seðlum í búningsklefa mótherjanna.

Knattspyrnusamband Norður- og Mið-Ameríku, Concacaf, hefur hafið rannsókn vegna myndbands sem sýnir hinn sextuga Ronnie Brunswijk útdeila seðlum eftir að hafa spilað leik í keppni á vegum sambandsins.

Eins og fram hefur komið á Vísi þá ákvað Brunswijk, sem er varaforseti Súrínam og eigandi Inter Moengotapoe, að tefla sjálfum sér fram í leik gegn Olimpia frá Hondúras á þriðjudaginn. Leikurinn var í næststerkustu alþjóðlegu keppni Concacaf, svipaðri Evrópudeildinni.

Brunswijk þraukaði fram í seinni hálfleik, með fyrirliðabandið, áður en honum var skipt af velli á 54. mínútu. Þá var staðan orðin 4-0 fyrir Olimpia sem vann að lokum 6-0 sigur.

Aganefnd Concacaf er nú með til skoðunar myndband sem birtist á samfélagsmiðlum eftir leikinn. Þar sést Brunswijk, sem á sínum tíma var dæmdur fyrir fíkniefnasmygl í Hollandi, útdeila seðlum í búningsklefa andstæðinganna, Olimpia, eftir leikinn. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Klippa: Varaforseti Súrínam í búningsklefa mótherjanna

Concacaf lýsir yfir þungum áhyggjum af efni myndbandsins sem veki upp spurningar um heilindi þeirra sem á því sjást. „Málið er inni á borði aganefndar Concacaf sem mun hefja formlega rannsókn og greint verður frá niðurstöðum hennar þegar þær liggja fyrir,“ segir í yfirlýsingu sambandsins.

Leikmenn og aðstoðarþjálfari Olimpia, sem CNN ræddi við, vildu ekki setja út á þátttöku hins sextuga Brunswijk í leiknum og sögðu andstæðingum sínum einfaldlega frjálst að tefla fram því liði sem þeir vildu. Enginn af fulltrúum Inter Moengotapoe hefur svarað fyrirspurnum miðilsins um málið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.