Enski boltinn

Anfield mun hoppa upp í þriðja sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmönnum Liverpool í stúkunni mun fjölga á Anfield frá og með 2023-24 tímabilinu.
Stuðningsmönnum Liverpool í stúkunni mun fjölga á Anfield frá og með 2023-24 tímabilinu. Getty/Andrew Powell

Liverpool hefur ákveðið að fara af fullum krafti í að stækka heimavöll sinn enn frekar en nýjustu framkvæmdirnar voru kynntar formlega í gær.

Með þessum framkvæmdum, sem fara nú í gang, mun Liverpool fjölga áhorfendum á Anfield um sjö þúsund á hverjum leik en eftir þær munu 61 þúsund manns geta séð hvern leik liðsins á Anfield.

Eftir þessar breytingar verður Anfield því kominn upp í þriðja sæti yfir stærstu leikvelli ensku úrvalsdeildarinnar og þá munu aðeins Old Trafford hjá Manchester United og Tottenham Hotspur leikvangurinn taka fleiri áhorfendur. Old Trafford tekur 74,1 þúsund áhorfendur en Tottenham völlurinn 62,3 þúsund áhorfendur.

Heimavöllur Liverpool er þessa stundina í sjötta sæti á eftir Emirates leikvangi Arsenal (60,7 þúsund áhorfendur), Ólympíuleikvangi West Ham (60 þúsund) og Ethiad leikvangi Manchester City (55 þúsund).

Borgarráð Liverpool gaf leyfi fyrir framkvæmdunum í sumar. Liverpool fékk einnig leyfi fyrir því að halda aukalega sex tónleika eða aðra stóra viðburði á leikvanginum fyrstu fimm tímabilin.

Anfield stendur í miðju íbúðahverfi og því er ljóst að það getur verið mikið ónæði af viðburðum á vellinum.

Stúkan sem verður endurnýjuð að þessu sinni er stúkan við Anfield Road eða sú sem snýr að Stanley Park garðinum.

Eins og áður verður stúkan byggð upp fyrir aftan núverandi stúku og þær síðan sameinaðar yfir sumartímann til að trufla sem minnst áhorfendaðsókn að vellinum á sjálfu tímabilinu. Það heppnaðist mjög vel þegar stóra stúkan var stækkuð fyrir nokkrum árum.

Nýja útgáfan af Anfield á að vera tilbúin fyrir 2023-24 tímabilið og mun kalla á 400 fleiri starfsmenn á hverjum leik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.