Enski boltinn

Sjö vikna hlé á ensku úr­vals­deildinni á næstu leik­tíð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk er einn af leikmönnunum sem gætu farið langt á HM í Katar (með Hollandi) og þurfa síðan að mæta í þétta jóladagskrá í ensku úrvalsdeildinni strax á eftir.
Virgil van Dijk er einn af leikmönnunum sem gætu farið langt á HM í Katar (með Hollandi) og þurfa síðan að mæta í þétta jóladagskrá í ensku úrvalsdeildinni strax á eftir. Getty/Visionhaus

Enska úrvalsdeildin í fótbolta þarf að gera sjö vikna hlé á deildinni á næsta keppnistímabili. Ástæðan er heimsmeistarakeppnin í Katar.

Félögin í ensku úrvalsdeildinni funduðu um framhaldið í gær og lögðu línurnar fyrir útlínur komandi tímabils.

Heimsmeistarakeppnin í Katar þarf að fara fram um vetrartímann vegna mikils hita í eyðimörkinni í Katar. Keppnin fer því fram frá 21. nóvember til 18. desember 2022. FIFA hefur fyrirskipað að félög þurfti að sleppa leikmönnum í síðasta lagi 14. nóvember.

Samkvæmt upplegginu hjá ensku úrvalsdeildinni mun deildin hefjast viku fyrr eða 6. ágúst sem og að hún mun enda viku seinna eða 28. maí.

Síðasta umferðin fyrir heimsmeistarakeppnina mun fara fram helgina 12. nóvember og 13. nóvember.

Ef við skoðuð tímabilið í ár þá fóru fram sjö umferðir í ensku úrvalsdeildinni og tvær umferðir í Meistaradeildinni á þessum tíma sem mun verða helgaður heimsmeistaramótinu í Katar eftir ár.

Knattspyrnusamband Evrópu mun hliðra Meistaradeildinni til þannig að riðlakeppnin klárast ekki í desember eins og vanalega heldur verður hún kláruð áður en leikmenn fara til að keppa á HM.

Það má búast við mun þéttari dagskrá hjá þeim félögum sem eru að keppa á mörgum vígstöðvum.

Það verður því ekki auðvelt fyrir þá leikmenn sem fara langt með sínum landsliðum í heimsmeistarakeppninni í Katar og mæta síðan strax á eftir inn í jólavertíðina í enska boltanum þar sem hefðin er að spila mjög þétt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.