Fótbolti

Þjálfari Juventus segir að liðið sé á leið í sex stiga fallbaráttuslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Massimiliano Allegri, þjálfari Juventus, gerir sér grein fyrir því að liðið hefur ekki byrjað vel á tímabilinu.
Massimiliano Allegri, þjálfari Juventus, gerir sér grein fyrir því að liðið hefur ekki byrjað vel á tímabilinu. Nicolò Campo/LightRocket via Getty Images

Juventus heimsækir Spezia í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu annað kvöld. Þjálfari liðsins, Massimilian Allegri, segir að leikurinn sé sex stiga fallbaráttuslagur.

Byrjun Juventus hefur verið afleit, en liðið hefur aðeins náð í tvö stig úr fyrstu fjórum leikjum tímabilsins og situr í 18. sæti sem er fallsæti. Þetta er í fjórða skipti í sögunni sem liðið er án sigurs í fyrstu fjórum leikjunum. 

Eins og áður segir er Spezia næsti andstæðingur Juventus, en þeir sitja eins og staðan er núna í 13. sæti með fjögur stig, tveimur stigum meira en ítalska stórveldið.

„Ef við horfum á stigatöfluna þá er Spezia á móti Juventus sex stiga fallbaráttuslagur,“ sagði Allegri.

Allegri tók við Juventus fyrir þetta tímabil í annað sinn, en hann þjálfaði liðið frá 2015 til 2019 og vann þá ítölsku deildina öll árin.

„Við þurfum að vera raunsæir. Við getum ekki verið að tala um markmiðin okkar eins og staðan er núna.“

„Það þýðir ekkert að tala um fortíðina, þetta er allt annað Juventus lið en þá,“ sagðiAllegri að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×