Fótbolti

Gummi ræddi við Henderson: „Ótrúlega gott að fá þá aftur“

Sindri Sverrisson skrifar
Jordan Henderson í viðtali eftir sigurinn góða í gærkvöld.
Jordan Henderson í viðtali eftir sigurinn góða í gærkvöld. Getty/Alex Livesey

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, ræddi við Guðmund Benediktsson á Anfield í gærkvöld eftir að hafa tryggt sínu liði 3-2 sigur á AC Milan í bráðfjörugum fyrsta leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í fótbolta á þessari leiktíð.

Liverpool hóf leikinn af krafti og komst í 1-0 en missti gestina fram úr sér á lokakafla fyrri hálfleiks. Staðan í hléi var 2-1 Milan í vil og Guðmundur spurði Henderson hvað hefði farið úrskeiðis á þeim kafla:

„Við lentum í fáeinum vandamálum í leiknum. Það var of mikið pláss á milli „línanna“ og slíkt, sem við ræddum um í hálfleik. Við gerðum fáein mistök og okkur var refsað, á þeim kafla, sem voru vonbrigði en heilt yfir fannst mér við spila virkilega vel, sérstaklega fyrstu 30 mínúturnar. 

Það hvernig við brugðumst við í seinni hálfleik var virkilega gott – við vissum að við hefðum 45 mínútur til að ná fram sigri – og mér fannst við höndla leikinn mjög vel. Við getum verið mjög ánægðir með frammistöðuna og auðvitað úrslitin líka, og reynum að læra af þessum 10-15 mínútum fyrir hálfleik.“

Klippa: Henderson í viðtali við Gumma Ben

Klopp reyndi að bregðast við fyrir markið

Guðmundur tók eftir því að Jürgen Klopp kallaði á Henderson rétt áður en jöfnunarmark Milan kom:

„Ég held að stjórinn hafi séð það, og við fundum það, að eitthvað var ekki alveg eins og það átti að vera. Því miður náðum við ekki tökum á því þessar síðustu 10-15 mínútur í fyrri hálfleik, og var refsað, en við ræddum þetta nánar í hléinu og það hjálpaði okkur fyrir seinni hálfleikinn. Við náðum tveimur mörkum og höfðum fína stjórn á leiknum,“ sagði Henderson.

Nú þegar kórónuveirufaraldurinn er í rénun mega áhorfendur fylla Anfield að nýju og Henderson brosti aðspurður hvernig honum liði með það:

„Stórkostlega. Það er langt síðan við fengum Evrópukvöld á Anfield með stuðningsmönnum. Það var ótrúlega gott að fá þá aftur. Þetta breytir fótboltanum svo mikið og megi þetta vara sem lengst.“


Tengdar fréttir

Ólafur naut sín í botn á Anfield: Fólkið hér skilur fótboltann

„Það er engu logið um stemninguna á Anfield á Evrópukvöldum,“ sagði Ólafur Kristjánsson, sérfræðingur Stöðvar 2 Sports, sem naut þess í botn að vera á Anfield í gærkvöld og sjá Liverpool vinna AC Milan í Meistaradeild Evrópu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.