Umfjöllun og viðtöl: ÍR - ÍA 1-3 | Skagamenn í undanúrslit eftir að hafa lent marki undir

Andri Már Eggertsson skrifar
Skagamenn eru sigurstranglegra liðið.
Skagamenn eru sigurstranglegra liðið. Vísir/Bára Dröfn

Öskubusku ævintýri ÍR-inga er lokið eftir 1-3 tap á heimavelli gegn ÍA. Heimamenn eru í 2. deild á meðan Skagamenn berjast fyrir lífi sínu í Pepsi Max deildinni. Þó heimamenn hafi átt frábæran leik dugði það ekki til að þessu sinni.

ÍR setti tóninn strax á fyrstu sekúndum leiksins. Þeir voru ekki að fara leggjast í skotgrafirnar. Heldur sóttu þeir hart að marki Skagamanna og fengu tvö marktækifæri strax á fyrstu mínútunum.

Pétur Hrafn Friðriksson kom ÍR yfir með kollspyrnu á 17. mínútu. Reynir Haraldsson átti þar góða fyrirgjöf frá vinstri sem rataði beint á fjærsvæðið. Pétur Hrafn reis þar hæst allra manna og skallaði boltann í netið.

Skagamenn virtust vera slegnir þegar ÍR komst yfir. Pétur Hrafn Friðriksson var augnabliki síðar kominn aftur í gott færi eftir klaufagang í vörn ÍA. Skot Péturs fór þó yfir markið.

Gestirnir náðu að hrista af sér skjálftann verandi marki undir. Þegar líða tók á fyrri hálfleik, unnu þeir sig betur inn í leikinn. Skagamenn héldu betur í boltann og fóru að færa sig ofar á völlinn.

Á 45. mínútu jafnaði Þórður Þorsteinn Þórðarson leikinn. Þórður Þorsteinn tók Zidane-snúning, sem opnaði allar gáttir fyrir hann í teignum. Hann átti þá hnitmiðað skot í fjærhornið og jafnaði leikinn. Í sömu andrá og ÍR-ingar tóku miðju var flautað til hálfleiks.

Eftir að rúmlega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, kom Gísli Laxdal Unnarsson Skagamönnum yfir. Þórður Þorsteinn Þórðarson átti góða fyrirgjöf frá hægri yfir á vinstri kantinn. Gísli Laxdal tók þar á móti boltanum fékk góðan tíma til að athafna sig og þrumaði knettinum í markið.

Leikmenn ÍA sýndu styrk sinn í seinni hálfleik. Eftir mark Gísla áttu Skagamenn auðveldara með að spila sinn leik. ÍR-ingar reyndu að sækja jöfnunarmarkið, það gekk þó heldur illa og ógnuðu þeir sjaldan marki ÍA. 

Halldór Arnarsson átti afar klaufalega sendingu til baka, sem varð til þess að Guðmundur Tyrfingsson komst inn í sendingu hans. Guðmundur lék síðan á Aron Óskar Þorleifsson og renndi boltanum í netið. 

Niðurstaðan 3-1 sigur ÍA sem eru komið í undanúrslit í Mjólkurbikarnum.

Af hverju vann ÍA? 

Það vakti Skagamenn þegar þeir lentu marki undir í leiknum. Eftir að þeir hristu af sér mesta stressið. Spiluðu þeir góðan leik sem skilaði þeim þremur mörkum og farseðilinn í undanúrslit.

Hverjir stóðu upp úr?

Þórður Þorsteinn Þórðarson var besti maður vallarins. Þórður Þorsteinn jafnaði leikinn með glæsibrag. Þórður lagði síðan upp annað mark ÍA, með góðri sendingu á Gísla Laxdal.

Árni Marinó Einarsson, markmaður ÍA, var heilt yfir flottur í dag. Þegar á reyndi stóð Árni Marinó vaktina vel og átti hann aldrei möguleika í marki ÍR. 

Hvað gekk illa?

ÍR byrjaði leikinn afar vel. Kraftmikil byrjun skilaði þeim laglegu marki. Þegar líða tók á fyrri hálfleikinn, fóru þeir úr því sem var að ganga upp í þeirra leikskipulagi og lögðust til baka. 

Þórður Þorsteinn jafnaði leikinn undir lok fyrri hálfleiks og virtust allir neistar slökkna í ÍR-liðinu eftir það. 

Hvað gerist næst?

ÍA mætir Fylki næsta sunnudag klukkan 14:00. ÍR leikur sinn síðasta leik í 2. deild næsta laugardag. Reynir Sandgerði mætir á Hertz-völlinn klukkan 14:00.

Annað mark ÍA var okkur að kenna 

Arnar Hallsson er hann þjálfaði Aftureldingu. Hann var ekki jafn glaður á svip er leik kvöldsins lauk.Afturelding

Arnar Hallson þjálfari ÍR, var svekktur með úrslit leiksins. 

„Orku og einbeitingarleysi okkar í fyrri hálfleik fer með leikinn. Við vorum með stjórn á leiknum fyrstu 30 mínúturnar. Þeir lögðust síðan á okkur og skoruðu flott en tilviljunarkennt mark," sagði Arnar eftir leik.

Eftir að vera talsvert betri framan af fyrri hálfleik, lagðist ÍR aftar á völlinn og á endanum fengu þeir það í bakið.

„Það er mín trú í fótbolta að eins mark forysta dugar ekki. Það þarf bara eitt atvik til að gangur leiksins breytist. Ég hefði viljað að við myndum gera meira til að sækja annað markið."

„Ég hefði gjarnan viljað fara með eins mark forystu í hálfleikinn. Það hefði gefið okkur tækifæri til að nálgast seinni hálfleikinn öðruvísi," sagði Arnar en viðurkenndi að 1-1 í hálfleik væri staða sem hann hefði tekið fyrir leik.

Arnar var svekktur með sína menn í öðru marki ÍA. Líkt og í fyrsta marki ÍA, voru miðjumenn ÍR of aftarlega.

„Þetta var klaufalegt mark. Eins og í fyrsta marki ÍA, féll miðjan okkar ofan í varnarlínuna. Þetta skapaði ákveðin graut hjá okkur sem Gísli nýtti sér."

Arnar var þó stoltur af liðinu sínu og hafa afrekað það að komast í 8-liða úrslit í fyrsta sinn í sögu ÍR.

„Þetta er eftirminnilegt, ég hafði gaman af þessu ævintýri. Þetta á eftir að lifa með mönnum lengi. Þetta er gaman fyrir þessa ungu stráka, en við viljum meira," sagði Arnar að lokum.


Mjólkurbikarinn er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Mjólkurbikarinn er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira