Erlent

Sví­þjóðardemó­krati hand­tekinn grunaður um morð

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn er talinn hafa orðið konu í Vestur-Gautlandi að bana í síðustu viku. Hann gegnir mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir Svíþjóðardemókrata.
Maðurinn er talinn hafa orðið konu í Vestur-Gautlandi að bana í síðustu viku. Hann gegnir mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir Svíþjóðardemókrata. EPA-EFE/Johan Nilsson

Karlmaður hefur verið handtekinn í Svíþjóð grunaður um að hafa myrt konu í suðurhluta Vestur-Gautlands í síðustu viku. Maðurinn er sagður stjórnmálamaður í flokki Svíþjóðardemókrata og sinnir mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

Konan var myrt 3. september síðastliðinn að sögn Per-Eriks Rinsell, saksóknara. Málið hefur enga athygli fengið í sænskum fjölmiðlum fyrr en nú. Maðurinn var handtekinn í gærkvöldi og hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald.

„Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir tíu mínútum síðan og er grunaður um morð. Maðurinn hefur neitað sök. Ég fór fram á gæsluvarðhald yfir honum vegna gruns um morð,“ sagði Rinsell fyrr í dag í samtali við sænska ríkisútvarpið.

Gæsluvarðhaldið yfir manninum rennur út eftir viku og segir Rinsell nauðsynlegt að rannsakendur finni frekari vísbendingar sem bendi til sektar hans svo hægt sé að framlengja gæsluvarðhaldið. Rannsakendur vilji ekki tjá sig um samband hins grunaða og konunnar að svo stöddu.

Svíþjóðardemókratar hafa vikið manninum frá trúnaðarstörfum tímabundið á meðan á rannsókn málsins stendur.

„Við tökum þessum upplýsingum mjög alvarlega. Flokkurinn fylgist grannt með stöðu mála og mun grípa til aðgerða í samræmi við reglur flokksins,“ segir Ludvig Grufman, upplýsingafulltrúi Svíþjóðardemókrata, í samtali við sænska ríkisútvarpið.

Andreas Exner, formaður Svíþjóðardemókrata í Sjuhärad, tekur undir þetta.

„Þetta er grafalvarlegt mál. Ég var satt best að segja í smá áfalli þegar ég frétti af þessu. Ég vissi ekkert um þetta fyrr en ég sá þetta í fréttunum,“ segir hann.

„Það er erfitt að trúa því að samstarfsmaður manns, sem maður þekkir, geti gert nokkuð svona lagað. Ég þekki hann og af minni reynslu er hann mjög rólegur maður. Það gerir þetta enn erfiðara.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.