Erlent

Búið að af­létta öllum tak­mörkunum í Dan­mörku

Atli Ísleifsson skrifar
Samkomutakmörkunum var fyrst komið á í Danmörku 11. mars 2020. Myndin er tekin í Nyhavn í upphafi þessa mánaðar.
Samkomutakmörkunum var fyrst komið á í Danmörku 11. mars 2020. Myndin er tekin í Nyhavn í upphafi þessa mánaðar. Getty

Öllum takmörkunum vegna faraldurs kórónuveirunnar var aflétt í Danmörku á miðnætti. Markar það endalok átján mánaða tímabils samkomutakmarkana í landinu. Ekki er útilokað að skólum í landinu verði lokað fari svo að faraldurinn fari á flug á ný.

Heilbrigðisráðherrann Magnus Heunicke greindi frá afléttingunum á blaðamannafundi 27. ágúst síðastliðinn þar sem hann sagði að Covid-19 yrði ekki lengur skilgreindur sem sjúkdómur sem ógni dönsku samfélagi. Þess í stað er Covid-19 skilgreindur sem „almennt hættulegur sjúkdómur“.

Nú verða því ekki lengur gerðar kröfur um grímur, fjarlægðarmörk eða bólusetningarvottorð í landinu.

80 prósent fullbólusett

DR segir frá því að Heunicke hafi sagt ákvörðunina tekna vegna hás hlutfalls bólusettra í landinu og sömuleiðis að Danir hafi náð góðum tökum á faraldrinum. Rúmlega 80 prósent Dana teljast nú fullbólusett og hafa dönsk stjórnvöld unnið að því í skrefum síðan í apríl síðastliðinn að opna samfélagið á ný.

Samkomutakmörkunum var fyrst komið á í Danmörku 11. mars 2020, þegar Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti um lokun stórs hluta dansks samfélag.

Sænsk stjórnvöld hafa tilkynnt að öllum takmörkunum verði aflétt í lok mánaðar. Í Noregi hafa stjórnvöld þar hins vegar ákveðið að fresta frekari afléttingum eftir að ný smitbylgja hófst þar á ný.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.