Fullkomin endurkoma Ronaldo í sigri Manchester United

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Ronaldo setti tvö mörk
Ronaldo setti tvö mörk EPA-EFE/PETER POWELL

Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk í öruggum sigri Manchester United á Newcastle United, 4-1. Ljóst er að endurkoma Ronaldo gefur Rauðu Djöflunum byr undir báða vængi í baráttu vetrarins.

Manchester United stillti up alvöru byrjunarliði fyrir þennan leik. Ronaldo í fremstu víglínu og fyrir aftan hann Bruno Fernandes, Jadon Sancho og Mason Greenwood. Á miðjunni voru svo Paul Pogba og Nemanja Matic. Frábærlega mannað.

Leikurinn byrjaði eins og búast mátti við. Newcastle lá til baka og rauðklæddir stjórnuðu leiknum án þess þó að skapa sér hættuleg færi. Það leit út fyrir að liðin myndu ganga til búningsherbergja í stöðunni 0-0 en annað kom á daginn. Á 46. mínútu átti Mason Greenwood fast skot sem Freddie Woodman, markvörður röndóttra náði ekki að grípa og Ronaldo skoraði úr frákastinu. Allt vitlaust á vellinum.

Newcastle vou ekki lengi að svara. Snörp skyndisókn á 56. mínútu kom Javier Manquillo einum í gegn á móti David De Gea og gerði sá spænski engin mistök, smellti boltanum örugglega í vinstra hornið. 1-1, þvert gegn gangi leiksins.

Cristiano Ronaldo gerði svo annað mark sitt og kom Manchester United aftur yfir á 62. mínútu. Skemmtilegt hlaup og flott stungusending frá Luke Shaw á Ronaldo sem gerði engin mistök og setti boltann með vinstri í markið.

Fallegasta mark leiksins leit svo dagsins ljós á 80. mínútu þegar að Paul Pogba lagði boltann á Bruno Fernandes sem sá að varnarlína Newcastle lá ansi aftarlega. Fernandes tók tvö skref og hamraði boltanum í netið af 25 metra færi. Leikurinn búinn.

Jesse Lingaard rak svo smiðshöggið með huggulegu marki í uppbótartóma, líka eftir sendingu frá Pogba. 4-1 lokatölur og Manchester United komið á topp deildarinnar í bili með 10 stig eftir fjóra leiki. Newcastle eru í miklum vandræðum með einungis eitt stig úr fyrstu fjórum leikjunum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.