Erlent

Dóms­mála­ráðu­neytið fer í hart við Texas vegna „hjart­sláttar­laganna“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Merrick Garland er dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Merrick Garland er dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AP Photo/J. Scott Applewhite

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur stefnt yfirvöldum í Texas-ríki Bandaríkjanna vegna umdeildra laga um þungunarrof sem nýlega tóku gildi í ríkinu. Ráðuneytið segir lögin vera andstæð stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Með lögunum, sem kölluð eru „hjartsláttarlög“, er þungunarrof bannað eftir að „hjartsláttur“ fósturs er greinanlegur, sem er í kringum sjöttu viku meðgöngu. Það er áður en flestar konur átta sig á því að þær eru óléttar.

Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti stefnuna á blaðamannafundi í Washington fyrr í dag. Sagði hann augljóst að lögin gætu ekki staðist stjórnarskrá Bandaríkjanna miðað við dómaframkvæmd Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Lögin eru hönnuð sérstaklega til þess að gera stofum sem framkvæma þungunnarrof erfitt um vik að sækja heimild dómstóla í Bandaríkjunum til þess að komast framhjá lögunum umdeildu.

Repúblikanar í Texas, sem settu lögin, telja sig nefnilega hafa fundið lagatæknilega leið til þess að gera andstæðingum sínum erfiðara fyrir að fá lögin felld úr gildi. Annars staðar hafa stuðningsmenn réttsins til þungunarrofs stefnt embættismönnum sem eiga að framfylgja slíkum lögum. Lögin í Texas veita einstaklingum, frekar en embættismönnum, rétt til þess að höfða mál gegn þeim sem hjálpa konum sem sækjast eftir ólöglegu þungunarrofi.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði því að fella lögin úr gildi skömmu eftir að þau tóku gildi. Sagði í áliti dómsins að þrátt fyrir að veigamiklar spurningar hafi vaknað um hvort að lögin stæðust stjórnarskrá gæti rétturinn ekki fellt lögin úr gildi að svo stöddu.

Krefjast þess að lögin verði felld úr gildi

Í lögsókn ráðuneytisins, sem mun koma til kasta alríkisdómstóls í Austin í Texas, segir að lögin séu andstæð stjórnarskrá Bandaríkjanna þar sem þau gangi gegn stjórnarskrárbundnum skyldum alríkisstjórnarinnar. Alríkisstjórnin hafi meðal annars það hlutverk að tryggja að íbúar séu ekki sviptir stjórnarskrárbundnum réttindum sínum með lögunum sem séu sérstaklega hönnuð til að hindra aðkomu dómstóla.

Krefst ráðuneytið þess að lögin verði lýst ógild og að embættismönnum, stofnunum og einkaaðilum sé óheimilt að framfylgja þungunarrofsbanninu.


Tengdar fréttir

Fleiri ríki vilja nýta sér smuguna sem Texas fann

Að minnsta kosti sex ríki Bandaríkjanna þar sem repúblikanar fara með völdin íhuga nú að leggja fram frumvörp um bann við þungunarrofi sem eru sambærileg við umdeild lög í Texas sem Hæstiréttur Bandaríkjanna leyfði að taka gildi.

Telja rétt kvenna til þungunarrofs afnuminn í skjóli nætur

Ákvörðun íhaldssamra dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna um að fella ekki úr gildi lög í Texas sem banna þungunarrof nær undantekningarlaust þrátt fyrir að þau virðist stangast á við dómafordæmi sætir harðri gagnrýni. Dómararnir eru sakaðir um að afnema grundvallarrétt kvenna í skjóli nætur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.