Erlent

Þungunar­rof ó­heimilt eftir um sex vikna með­göngu í Texas

Atli Ísleifsson skrifar
Hluti þingmanna ríkisþings Texas mótmæltu nýju lögunum harðlega fyrr í sumar.
Hluti þingmanna ríkisþings Texas mótmæltu nýju lögunum harðlega fyrr í sumar. AP

Ströngustu lög um þungunarrof í Bandaríkjunum tóku gildi í Texas í dag eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna aðhafðist ekkert til þess að stöðva gildistöku þeirra. Lögin banna þungunarrof í nær öllum tilfellum.

Fréttaveitan AP segir lögin vera þau ströngustu í landinu frá því að Hæstiréttur landsins komst að þeirri niðurstöðu að konur hefðu stjórnarskrárvarinn rétt til þungunarrofs í máli sem kennt hefur verið við Roe gegn Wade á áttunda áratug síðustu aldar.

Lögin í Texas meina konum að gagnast undir þungunarrof um leið og hægt er að greina hjartslátt fóstursins, sem gerist vanalega í kringum sex vikna meðgöngu. Margar konur vita ekki af því að þær séu óléttar svo snemma.

Samtök sem berjast fyrir rétti kvenna til þungunarrofs áætla að um 85 prósent þeirra þungunarrofsaðgerða sem nú eru framkvæmdar í ríkinu yrðu ólöglegar og sömuleiðis þyrftu fjölmargar stofur sem framkvæma slíkar aðgerðir að loka.

Andstæðingar nýju laganna hafa óskað eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna taki nýju lögin til umfjöllunar í þeirri von að fella þau úr gildi. Heilsugæslustöðvar sem bjóða upp á þungunarrof telja að lögin stangist á við dómafordæmi Hæstaréttar.

Fjöldi ríkja þar sem íhaldssamir repúblikanar fara með völdin hafa sett sambærileg lög en alríkisdómarar hafa fellt þau öll úr gildi þar sem þau ganga gegn fordæminu sem var sett í Roe gegn Wade og fleiri hæstaréttardómum sem fylgdu á eftir.

Repúblikanar í Texas telja sig hins vegar hafa fundið lagatæknilega leið til þess að gera andstæðingum sínum erfiðara fyrir að fá lögin felld úr gildi. Annars staðar hafa stuðningsmenn réttsins til þungunarrofs stefnt embættismönnum sem eiga að framfylgja slíkum lögum. Lögin í Texas veita einstaklingum, frekar en embættismönnum, rétt til þess að höfða mál gegn þeim sem hjálpa konum sem sækjast eftir ólöglegu þungunarrofi, að því er segir í frétt Washington Post.

Þannig heldur Ken Paxton, dómsmálaráðherra Texas, því fram að hæstiréttur hafi ekki lögsögu til að fella lögin úr gildi. Ekki verði hægt að höfða mál til að ógilda lögin fyrr en einhver stefnir heilsugæslu fyrir að veita konu aðstoð við þungunarrof.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×