Erlent

Hús­leit í þýskum ráðu­neytum vegna rann­sóknar á spillingar­deild

Kjartan Kjartansson skrifar
Húsleitin kemur á versta tíma fyrir Olaf Scholz, fjármálaráðherra, sem á möguleika á á verða næsti kanslari Þýskalands.
Húsleitin kemur á versta tíma fyrir Olaf Scholz, fjármálaráðherra, sem á möguleika á á verða næsti kanslari Þýskalands. Vísir/EPA

Saksóknarar gerður húsleit í fjármála- og dómsmálaráðuneytum Þýskalands í dag. Leitin er sögð hluti af rannsókn á opinberri stofnun sem rannsakar peningaþvætti en hún kemur á versta tíma fyrir fjármálaráðherrann sem stendur í harðri kosningabaráttu.

Fjármálaupplýsingadeildin (FIU) er hluti af fjármálaráðuneytinu en bæði hún og fjármálaeftirlit Þýskalands hafa sætt gagnrýni fyrir að hafa misst af stórfelldu misferli greiðslumiðlunarfyrirtækisins Wirecard sem fór á hausinn með tilþrifum í fyrra.

Rannsóknin nú beinist að ásökunum um að deildin hafi fengið fyrirmæli um að hunsa tilkynningar banka um grunsamlegar peningafærslur til Afríku, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Aðgerðir þýskra stjórnvalda gegn peningaþvætti eru einnig til skoðunar hjá FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það eru sömu samtök og settu Ísland á gráan lista vegna aðgerðaleysis gegn peningaþvætti árið 2019.

FIU er sögð hafa átt erfitt með að anna þeim tugum þúsunda tilkynninga sem henni berast frá fjármálastofnunum um grunsamlega fjármagnsflutninga. Ekki er langt síðan deildin hætti að taka við slíkum tilkynningum með faxi.

Talsmaður saksóknaranna sem gerðu húsleitina segir að rannsóknin hafi hafist eftir að kvartanir bárust um að fjárglæpadeildin hefði ekkert aðhafst varðandi vafasamar millifærslur á miljónum evra, meðal annars til Afríku, á árunum 2018 til 2020. Bankar hafi haft grunsemdir um að færslurnar tengdust viðskiptum með vopn og fíkniefni eða fjármögnun hryðjuverka.

FIU hafi staðfest móttöku tilkynninganna en ekki vísað þeim áfram til löggæslustofnana. Rannsóknin beinist einnig að því að eftir að deildin tók við rannsókn á peningaþvætti árið 2017 hafi tilkynningum um grunsamlegar fjármagnsflutninga snarfækkað.

Þýskaland sagt paradís fyrir glæpona

Olaf Scholz, fjármálaráðherra úr flokki Sósíaldemókrata, eygir nú góða möguleika á að verða næsti kanslari Þýskalands í þingkosningunum sem fara fram 26. september ef marka má skoðanakannanir.

Stjórnarandstaðan gagnýnir Scholz og segir að undir stjórn hans sé Þýskaland paradís fyrir glæpamenn. Fjármálaráðuneytið segist hafa fjölgað starfsfólki peningaþvættisdeildarinnar og að enginn starfsmaður ráðuneytisins liggi undir grun um saknæmt athæfi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.