Fótbolti

Ösku­illur Van Gaal: „Þú veist ekkert hvað þú ert að tala um, ert bara blaða­maður“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Louis van Gaal er einstakur í alla staði.
Louis van Gaal er einstakur í alla staði. EPA-EFE/MAURICE VAN STEEN

Hinn sjötugi þjálfari hollenska landsliðsins, Louis van Gaal, var ekki parsáttur við fullyrðingu blaðamanns fyrir leik Hollands og Tyrklands. Fullyrðingin sneri þó ekki að spilamennsku Hollands heldur að enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea.

Holland rúllaði yfir Tyrkland í toppslag G-riðils í gær er liðin mættust í Amsterdam, lokatölur 6-1 Hollendingum í vil sem nýttu sér það að Çağlar Söyüncü, miðvörður Tyrklands, lét reka sig af velli undir lok fyrri hálfleiks í stöðunni 3-0.

Spilamennska Hollands er eitt en framkoma Louis van Gaal er annað. Eins og Vísir greindi frá er Van Gaal ekki par hrifinn af Formúlu 1 og nú er ljóst að hann er mikill aðdáandi Thomas Tuchel og Chelsea. Svo mikill aðdáandi er hann að þjálfarinn lét blaðamanninn Valentijn Drissen heyra það sem finnst Chelsea spila varnarsinnaðan bolta.

„Það er alls ekki þannig Valentijn. Þú veist ekkert um hvað þú ert að tala. Mér þykir leitt að segja það en þú ert bara blaðamaður. Þú ert að reyna koma þinni sýn á framfæri en þú hefur enga fótboltasýn. Þú býrð yfir sýn fyrir dagblaðið þitt, frábært. Það vekur athygli og allt það,“ sagði Van Gaal öskuillur eftir að Drissen dirfðist að gefa til kynna að Chelsea væri varnarsinnað lið.

Hann hélt svo áfram að láta blaðamanninn heyra það.

„Það er hægt að sækja á góðan hátt með 5-3-2 eða 5-2-3 leikkerfi. Það sýnir Chelsea með fullt af mismunandi leikmönnum. Ég tek hatt minn ofan fyrir Tuchel,“ bætti hann við og þóttist taka ósýnilegan hatt af höfði sínu.

„Þú ættir að lesa bókina mína því ég held þú hafir gert það,“ sagði Van Gaal að endingu.

Myndband af þessum orðaskiptum má sjá hér að neðan. Einnig sést Memphis, aðalstjarna Hollands, glotta við tönn og taka góðan vatnssopa er Van Gaal byrjaði að láta gamminn geysa.


Tengdar fréttir

Holland, Tyrkland og Ísrael með stórsigra

Undankeppni HM 2022 hélt áfram í dag og það voru 13 leikir á dagskrá. Hollendingar og Tyrkir unnu sína leiki í G-riðli og lyfta sér upp fyrir Norðmenn í efstu tvö sætin. Þá unnu Ísraelar sterkan 5-2 sigur á Austurríkismönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×