Innlent

Árnar á Eskifirði hamdar með steyptum stokkum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Stokkurinn sem beisla mun Lambeyrará kostar um 800 milljónir króna.
Stokkurinn sem beisla mun Lambeyrará kostar um 800 milljónir króna. Arnar Halldórsson

Fimm ár sem renna í gegnum Eskifjarðarbæ eru að missa náttúrulega farvegi sína og flæða í framtíðinni um steypta stokka, með framkvæmdum sem kosta vel á þriðja milljarð króna. Tilgangurinn er að verja byggðina fyrir ofanflóðum.

Þær virðast ósköp sakleysislegar í þurrkatíð á sumrin, árnar sem renna úr hlíðinni ofan Eskifjarðar og í gegnum bæinn. En þegar skriðurnar féllu á Seyðisfirði í vetur þurfti á sama tíma að rýma heilu göturnar á Eskifirði, milli Lambeyrarár og Ljósár.

Eskfirðingurinn Eydís Ásgeirsdóttir er forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.Arnar Halldórsson

„Þessir atburðir sem áttu sér stað í vetur, eins og á Seyðisfirði, þetta vekur okkur öll til umhugsunar. Við verðum að taka þessi mál alvarlega og erum í góðu samstarfi við Veðurstofuna og Ofanflóðasjóð,“ segir Eydís Ásgeirsdóttir, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, sem rætt var við í fréttum Stöðvar 2.

Það er Ofanflóðasjóður sem stendur fyrir þessum miklu framkvæmdum, en þær hófust fyrir sjö árum. Um þessar mundir er verið að steypa Lambeyrará í stóran stokk, verk sem kostar um áttahundruð milljónir króna, samkvæmt upplýsingum Framkvæmdasýslu ríkisins. Áður var búið girða Bleiksá, Hlíðarendaá og Ljósá fyrir samtals 650 milljónir króna en Héraðsverk hefur verið aðalverktaki frá upphafi.

Grjótá til vinstri verður fimmta og síðasta áin sem girt verður af með stokki. Lambeyrará komin í stokk til hægri.Arnar Halldórsson

Fimmta og síðasta áin sem verður tekin er Grjótá. Þá munu árbakkar hennar einnig víkja fyrir steinsteyptum stokki.

Það verk segir Framkvæmdasýslan að verði það stærsta og að kostnaður verði að lágmarki einn milljarður króna. Heildarpakkinn í ofanflóðavörnum Eskifjarðar verður þannig vart undir tveimur og hálfum milljarði króna.

„Allir þessir árfarvegir eiga sér sögu um ofanflóð, krapa og aurflóð. Þetta eru auðvitað gríðarlega miklar framkvæmdir og mikil inngrip. En þetta snýst auðvitað fyrst og frest um það að verja mannslíf og samfélög,“ segir Eydís.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir mikilvægt að efla varnir

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir ofanflóðavarnir, ötula vinna lögreglu og verktaka Suðurvers og Héraðsverks hafa orðið til þess að sporna gegn frekara tjóni sem varð þegar mikið vatn flæddi niður Hlíðarendaá fyrir ofan Eskifjörð. Hann segir mikilvægt að efla varnir á svæðinu.

Bæjarbúar á Eskifirði ósáttir við framkvæmdir

Mikil óánægja ríkir vegna framkvæmda Ofanflóðasjóðs og Fjarðabyggðar á Eskifirði. Framkvæmdirnar eru sagðar óþarfar og telja bæjar­búar mannvirkið vera mikið lýti fyrir bæjarmyndina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.