Fótbolti

Ribéry til liðs við nýliða Salernitana

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Franck Ribéry er enn í fullu fjöri.
Franck Ribéry er enn í fullu fjöri. Francesco Pecoraro/Getty Images

Hinn 38 ára Franck Ribéry hefur skrifað undir eins árs samning við nýliða ítölsku úrvalsdeildarinnar Salernitana.

Ribéry gengur til liðs við nýliðanna frá Fiorentina þar sem hann hefur leikið seinustu tvö tímabil, og var valinn leikmaður ársins fyrra tímabilið sitt hjá félaginu.

Frakkinn er hvað þekktastur fyrir tíma sinn hjá þýska stórveldinu Bayern München þar sem hann lék í tólf ár frá 2007 til 2019. Með Bayern vann Ribéry þýsku deildina níu sinnum, þýska bikarinn sex sinnum og Meistaradeild Evrópu einu sinni svo eitthvað sé nefnt.

Hann hafði verið orðaður við endurkomu til þýsku meistaranna í sumar, en nú er það ljóst að hann mun leika með Salernitana í ítölsku deildinni í vetur.

Ribéry lék á sínum tíma 81 leik fyrir franska landsliðið og skoraði í þeim 16 mörk. Hann var í franska liðinu sem vann til silfurverðlauna á HM 2006.

Árið 2013 hafnaði Ribéry í þriðja sæti í keppninni up Ballon d'Or, eða gullknöttinn. Margir vildu meina að hann hefði átt að sigra það ár en að keppnin hafi breyst í vinsældarkeppni og því hafi hann lent aftar í röðinni en Cristiano Ronaldo og Lionel Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×