Íslenski boltinn

ÍBV nálgast sæti í efstu deild

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Eyjamenn eru með eins stigs forystu á Kórdrengi í öðru sæti Lengjudeildarinnar.
Eyjamenn eru með eins stigs forystu á Kórdrengi í öðru sæti Lengjudeildarinnar. MYND/@ÍBV.FC

ÍBV vann í dag mikilvægan 1-0 sigur þegar að liðið heimsótti Þór frá Akureyri í Lengjudeild karla í knattspyrnu í dag. Eyjamenn eru enn í harðri baráttu um sæti í efstu deild á næsta tímabili, en Þórsarar eru ekki enn búnir að hrista falldrauginn af sér.

Bæði lið fengu ágætis færi í fyrri hálfleik, en hvorugu liðinu tókst þó að koma boltanum í netið og staðan því 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn betur, en það voru þó Eyjamenn sem voru fyrri til að brjóta ísinn. Breki Ómarsson slapp þá einn í gegn og kláraði vel framhjá Daða Frey Arnarssyni í marki Þórs.

Þetta reyndist eina mark leiksins og það voru því gestirnir frá Vestmannaeyjum sem fögnuðu 1-0 sigri. ÍBV er nú með 38 stig í öðru sæti deildarinnar, stigi á undan Kórdrengjum í þriðja sætinu. Eyjamenn hafa þó spilað tveim leikjum minna og því eru þeir í góðri stöðu til að tryggja sæti sitt í Pepsi Max deildinni á næsta tímabili.

Þórsarar sitja hinsvegar í tíunda sæti deildarinnar með 20 stig, níu stigum fyrir ofan fallsævðið. Þróttur R. getur enn náð þeim að stigum, en nú þegar aðeins þrír leikir eru eftir verður staða Þórsara að teljast nokkuð örugg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×