Fótbolti

Samningi Arons í Póllandi rift

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Jóhannsson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Lech Poznan og verður frá keppni næstu mánuðina.
Aron Jóhannsson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Lech Poznan og verður frá keppni næstu mánuðina. lechpoznan.pl/Przemysław Szyszka

Knattspyrnumaðurinn Aron Jóhannsson mun ekki leika meira fyrir pólska félagið Lech Poznan. Aron og félagið tóku sameiginlega ákvörðun um að rifta samningi hans sem gilda átti til áramóta.

Í tilkynningu frá Lech Poznan segir að vegna alvarlegra axlarmeiðsla þurfi Aron að halda sig frá fótbolta fram að áramótum. Hann axlarbrotnaði í leik með varaliði félagsins, eftir að hafa skorað tvö mörk, í leik 7. ágúst.

Aron kom til Íslands í síðustu viku til að fara í endurhæfingu og í kjölfarið var sú ákvörðun tekin að hann yrði laus allra mála hjá Lech Poznan.

Aron kom til Lech Poznan síðasta vetur og lék tíu leiki fyrir aðallið félagsins, og skoraði tvö mörk.

Aron, sem er þrítugur, hefur verið afar óheppinn með meiðsli á sínum ferli. Hann hóf atvinnumannsferilinn með AGF í Danmörku árið 2010 eftir að hafa leikið með Fjölni hér á landi. Hann skoraði grimmt fyrir AGF og einnig AZ Alkmaar í Hollandi áður en hann var seldur til Werder Bremen í Þýskalandi sumarið 2015.

Í Þýskalandi náði Aron sér aldrei á strik, enda glímdi hann við ítrekuð meiðsli. Hann fór svo til Hammarby í Svíþjóð og gekk í endurnýjun lífdaga í fyrra þegar hann skoraði 12 mörk í sænsku úrvalsdeildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.