Fótbolti

Upplifir drauminn: „Fékk treyjuna um hver jól“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sabitzer hefur dreymt um að spila í Bayern treyjunni frá því í æsku.
Sabitzer hefur dreymt um að spila í Bayern treyjunni frá því í æsku. S. Mellar/FC Bayern via Getty Images

Austurríkismaðurinn Marcel Sabitzer gekk í raðir Þýskalandsmeistara Bayern München frá RB Leipzig í dag. Hann hefur dreymt um að spila fyrir félagið frá æsku.

Leipzig hefur sótt að Bæjurum í toppbaráttunni síðustu ár, og lenti í öðru sæti í Þýskalandi í fyrra, en Bayern München hefur unnið þýska meistaratitilinn óslitið frá 2013. Það er til marks um yfirburði Bæjara að Sabitzer er þriðji lykilmaðurinn sem fer frá Leipzing til München í sumar.

Áður réði Bayern Julian Nagelsmann sem knattspyrnustjóra liðsins frá Leipzig, og festi kaup á franska varnarmanninum Dayot Upamecano. Nagelsmann fær nú annan lykilmann úr liði sínu hjá Leipzig en Sabitzer skrifaði undir fjögurra ára samning í dag eftir að hafa verið keyptur á rúmar 15 milljónir evra.

Sabitzer er 27 ára gamall en lét hafa eftir sér að hann hafi dreymt um að spila fyrir Bayern München frá æsku. Hann mun bera treyju númer 18 hjá félaginu.

„Ég er virkilega ánægður með að fá tækifæri til að spila með FC Bayern. Jafnvel sem barn var Bayern treyjan mitt stolt, um hver jól fékk ég nýjustu treyjuna. Ég mun gefa allt fyrir félagið, og auðvitað vil ég vinna fjölda titla.“ er haft eftir Sabitzer um skiptin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×