Fótbolti

Spezia kaupir Mikael en lánar hann aftur til SPAL

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikael Egill Ellertsson í leik með íslenska U-17 ára landsliðinu gegn Portúgal á EM fyrir tveimur árum.
Mikael Egill Ellertsson í leik með íslenska U-17 ára landsliðinu gegn Portúgal á EM fyrir tveimur árum. getty/Piaras Ó Mídheach

Ítalska úrvalsdeildarfélagið Spezia hefur fest kaup á íslenska landsliðsmanninum Mikael Agli Ellertssyni frá SPAL. Hann leikur þó sem lánsmaður með SPAL, sem er í ítölsku B-deildinni, út tímabilið.

Mikael skrifaði undir fimm ára samning við Spezia en hann gengur í raðir þess næsta sumar.

Hinn nítján ára Mikael er annar tveggja nýliða í íslenska landsliðinu sem mætir Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi í undankeppni HM 2022 í byrjun næsta mánaðar.

Í samtali við Vísi í síðustu viku sagðist Mikael ekki hafa búist við því að vera valinn í A-landsliðið núna. „Ég hélt að ég yrði bara valinn í U-21 árs landsliðið fyrst. Þetta kom mér mjög mikið á óvart,“ sagði Mikael.

Á síðasta tímabili gerði Mikael góða hluti með varaliði SPAL og fyrr í þessum mánuði lék hann sinn fyrsta leik fyrir aðallið félagsins í bikarleik gegn Frosinone. Hann kom svo inn á sem varamaður í 5-0 sigri á Pordenone í B-deildinni í gær.

Mikael kom til SPAL frá Fram sumarið 2018. Hann hafði þá leikið tólf leiki í deild og bikar fyrir Fram.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.