Fótbolti

Kolbeinn og Rúnar Már ekki með í komandi landsliðsverkefni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson verður ekki með íslenska landsliðinu gegn Rúmeníu.
Kolbeinn Sigþórsson verður ekki með íslenska landsliðinu gegn Rúmeníu. Vísir/Vilhelm

Tveir leikmenn sem voru í upphaflegum landsliðshóp Íslands fyrir komandi verkefni í undankeppni HM verða ekki með í verkefninu sem hefst eftir tvo daga. Annar hefur verið tekinn úr hópnum en hinn mun hafa dregið sig sjálfur úr hópnum.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar þá eru leikmennirnir tveir sem eru ekki lengur í hópnum þeir Kolbeinn Sigþórsson og Rúnar Már Sigurjónsson.

Gísli Gíslason, varaformaður KSÍ, staðfesti í samtali við Vísi fyrr í dag að tvær breytingar yrðu gerðar á hópnum og að annar leikmaðurinn hafi sjálfur ákveðið að draga sig úr hópnum. Hinn hafi verið tekinn úr hópnum í kjölfar krísufundar hjá Knattspyrnusambandinu sem stóð stærstan hluta helgarinnar.

Ekki er vitað hvor þeirra dró sig sjálfviljugur úr hópnum. Von sé á skýringum frá KSÍ síðar.

Arnar Þór Viðarsson hefur að mörgu að hyggja nú þegar landsleikirnir eru að bresta á.Getty

Að sögn Gísla er Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari á leið til landsins og muni hann greina nánar frá breytingunum.

Ekki náðist í Arnar Þór við vinnslu fréttarinnar.

Styr hefur staðið um KSÍ í aðdraganda landsleikjanna en Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður sambandsins fyrr í dag í kjölfar frétta af meintri hylmingu sambandsins yfir kynferðisbrot landsliðsmanna.


Tengdar fréttir

Tveir leikmenn munu ekki spila gegn Rúmeníu

Tveir leikmenn sem valdir voru í landsliðshópinn fyrir komandi landsleiki í undankeppni HM 2022 í fótbolta verða ekki með í næsta verkefni. Annar hefur verið tekinn úr hópnum en hinn mun hafa dregið sig sjálfur úr hópnum.

KSÍ muni biðjast afsökunar

Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ, segir sambandið munu biðja þolendur kynferðisofbeldis afsökunar.

Guðni Bergsson segir af sér

Guðni Bergsson hefur sagt starfi sínu sem formaður KSÍ lausu. Hann var kosinn formaður fyrst árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×