Innlent

Guðni Bergsson segir af sér

Árni Sæberg og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Guðni Bergsson hefur sagt af sér.
Guðni Bergsson hefur sagt af sér. vísir/vilhelm

Guðni Bergsson hefur sagt starfi sínu sem formaður KSÍ lausu. Hann var kosinn formaður fyrst árið 2017.

KSÍ tilkynnti afsögn Guðna á Twitter rétt í þessu.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fréttastofu ákvað Guðni sjálfur að stíga til hliðar.

Stjórn KSÍ hefur fundað frá klukkan tíu í morgun. Sannkallaður maraþonfundur var hjá stjórninni í gær um ofbeldismál sem stóð með hléum frá hádegi fram til kvölds.

Fundað hefur verið vegna frétta af meintri hylmingu sambandsins yfir kynferðisbrot landsliðsmanna.

Heimildir fréttastofu herma að lögð hafi verið fram tillaga um að halda auka ársþing til að kjósa nýja stjórn, en að sú tillaga hafi verið felld.

Hvað gerðist?

Rúmar tvær vikur eru síðan Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari skrifaði harðorðan pistil á Vísi undir yfirskriftinni Um KSÍ og kvenfyrirlitningu. Þá sá enginn fyrir að formaður KSÍ þyrfti að segja af sér tveimur vikum síðar.

Viðbrögð KSÍ við pistlinum voru að segja Hönnu fara með dylgjur. Hanna svaraði með öðrum pistli sem leiddi til þess að Guðni Bergsson fór í viðtal við fréttastofu Stöðvar 2 um málið.

Í framhaldi fór hann í Kastljós þar sem hann sagði engar tilkynningar um ofbeldi hafa komið inn á borð sambandsins síðan hann tók við sem formaður 2017. Í framhaldinu steig ung kona fram í viðtali í kvöldfréttum RÚV á föstudagskvöldið og upplýsti að KSÍ hefði verið meðvitað um miskabótagreiðslur landsliðsmanns til sín fyrir ofbeldisbrot haustið 2017.

Guðni sagðist hafa misminnt. Hann hefði haldið að um ofbeldismál hefði verið að ræða en ekki kynferðisofbeldi. Síðan hefur komið fram hávær krafa um afsögn hans og breytingar innan KSÍ. Meðal annars frá Hönnu Björgu sem var boðuð á fund með stjórn KSÍ í dag.

Nú er Guðni hættur og spurning hvað tekur við í framhaldinu. Von er á tilkynningu frá KSÍ.

Þeir sem vilja kafa dýpra geta kynnt sér ásakanir og önnur leiðindamál sem snerta leikmenn landsliðsins, staðfestar og óstaðfestar sögur, sem hafa skotið upp kollinum reglulega undanfarin ár.

Fréttin verður uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.