Sport

Tveir leikmenn munu ekki spila gegn Rúmeníu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen á blaðamannafundi KSÍ.
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen á blaðamannafundi KSÍ. Vísir/Vilhelm

Tveir leikmenn sem valdir voru í landsliðshópinn fyrir komandi landsleiki í undankeppni HM 2022 í fótbolta verða ekki með í næsta verkefni. Annar hefur verið tekinn úr hópnum en hinn mun hafa dregið sig sjálfur úr hópnum.

Þetta staðfesti Gísli Gíslason, varaformaður KSÍ, í samtali við fréttastofu í dag.

Það mun koma í hlut Arnars Þórs Viðarssonar landsliðsþjálfara að greina nánar frá breytingum á hópnum. Arnar Þór er á leiðinni til landsins að sögn Gísla. 

Gísli segir að annar leikmaðurinn hafi sjálfur ákveðið að draga sig úr hópnum.

Í viðtalinu að neðan segir Gísli að það hafi að endingu verið ákvörðun Guðna Bergssonar að stíga til hliðar sem formaður KSÍ eftir mikil fundarhöld og skoðanaskipti.

„Að sjálfsögðu urðu miklar umræður og skipst á skoðunum en þetta er á endanum ákvörðun Guðna sjálfs að stíga til hliðar.“

Þá var Gísli spurður að því hvort fleiri stjórnarmeðlimir myndu stíga til hliðar.

„Ég get ekki sagt til um það á þessum tíma. Það var svona meginatriðið að stjórnin gæti ekki stigið til hliðar á þessum tímapunkti einfaldlega vegna þess að það þarf að halda sambandinu gangandi og það eru verkefni sem þarf að vinna. En það var auðvitað rætt og það var farið yfir það en niðurstaðan er að það væri skynsamlegast að gera þetta svona.“

Fréttin hefur verið uppfærð en í fyrri útgáfu var haft eftir Gísla að tveir leikmenn hefðu verið teknir úr hópnum. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.